145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju með að þetta frumvarp sé komið fram og að okkur hafi gengið vel að vinna að afnámi hafta. Við í Samfylkingunni munum styðja þetta skref eins og önnur sem stigin hafa verið í afnámi hafta, hvort sem við höfum verið í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, og erum sérstaklega stolt af því að sjá að sú áætlun sem við lögðum upp með í marsmánuði 2011 hefur gengið eftir í stórum dráttum og sú samningsstaða sem sköpuð var með lagasetningu í mars 2012 gagnvart erlendum kröfuhnöfum hefur líka skilað okkur árangri.

Það eina sem ég velti kannski upp og vildi spyrja hæstv. ráðherra um er aflandskrónuvandinn. Við gerðum ráð fyrir að það yrði kannski fyrsta verkefnið sem glímt yrði við og framan af í tillögum ráðherra var gert ráð fyrir að tekið yrði á aflandskrónuvandanum á undan kröfuhöfum hinna föllnu banka. Síðan var röðinni breytt. Svo var gripið til aðgerða í vor gagnvart aflandskrónueigendum og í kjölfarið ráðist í útboð, en það verður að segjast eins og er að þátttakan í því var kannski undir væntingum sem gerðar höfðu verið.

Ég vil því aðeins velta því upp við hæstv. ráðherra hvort það kunni að hafa verið mistök, eftir á að hyggja, að bíða með aflandskrónueigendur og aðgerðir gagnvart þeim, hvort það hefði kannski verið betra að halda upphaflegri áætlun og hvert mat hans er á þeirri stöðu núna og hvernig hún sé og hvort hún komi í veg fyrir frekara afnám hafta, eða hvernig sú staða hafi áhrif á næstu skref sem ég vona svo sannarlega að við getum tekið eins fljótt og verða má.