145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa mjög langa ræðu um þetta mál en vil þó ítreka nokkur atriði í tengslum við það. Efnisatriði frumvarpsins voru kynnt fyrir svokallaðri samráðsnefnd um losun hafta fyrir nokkrum dögum. Ég hlýt að gera athugasemd við það enn og aftur hve lítið raunverulegt samráð hefur verið haft um afnám og losun hafta á þessu kjörtímabili. Hér var skipaður samráðshópur sem ekki hefur verið starfandi sem slíkur heldur meira verið í því hlutverki að taka við fréttatilkynningum um aðgerðir. Ég vil bara segja að mér finnst það sýna skilning allra stjórnmálaflokka á Alþingi á þessu verkefni og mikilvægi þessa verkefnis sem við höfum auðvitað margítrekað hér í ræðum að við viljum eiga sem best þverpólitískt samstarf og samráð um. Þrátt fyrir þann skort á vilja sem ríkisstjórnin hefur sýnt með því að hafa í raun ekkert samráð um þessar aðgerðir hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna ávallt gert sitt til að greiða fyrir málum, enda finnum við ekki síst þrýsting frá atvinnulífinu í landinu að þessi skref séu stigin.

Ég get hins vegar tekið undir það sem bent hefur verið á að þetta frumvarp, og kom raunar fram í ræðu hæstv. ráðherra, breytir kannski ekki miklu um það hvernig almenningur í landinu upplifir höft. Almenningur í landinu hefur lítið upplifað höft nema þeir sem enn fara í banka og kaupa seðla í gjaldeyri og þurfa þá að framvísa farseðli. Flestir fara nú bara með greiðslukortið til útlanda og finna ekkert sérstaklega fyrir höftum. Það er því auðvitað misvísandi kynning á málinu að tala um að þetta sé endilega mikið aukið frelsi fyrir almenning.

En það sem er jákvætt í frumvarpinu er að þetta skiptir máli kannski ekki síst fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þaðan höfum við þingmenn heyrt talsvert margar sögur sem lúta að erfiðleikum vegna hafta. Ég nefni þá sérstaklega sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem þurfa að reiða sig á mikil alþjóðleg samskipti; stundum kallað hinn alþjóðlegi geiri. Auðvitað fögnum við því þegar við náum að styrkja við þann hluta atvinnulífsins, sem ég tel raunar að við Íslendingar eigum að reiða okkur miklu meira á.

Hér eru stigin ákveðin skref í losun hafta sem eins og ég segi geta skipt máli fyrir þessa aðila og þá sem eiga hundrað milljónir til að kaupa sér hús í útlöndum, sem ég efast um að sé allur almenningur. En gott og vel. Ég vil þó segja að við erum auðvitað enn með vanda. Það er sá vandi sem við vitum að er í aflandskrónueignunum. Það er umhugsunarefni hvernig nákvæmlega verður tekist á við þann vanda í ljósi þess að aðeins lítill hluti þessara eigenda tók þátt í útboði Seðlabankans í sumar.

Eins og hér hefur komið fram eru 220 milljarðar á leið inn á læsta reikninga. Auðvitað skapar það þá stöðu að ástandið er ekki eðlilegt. Það er ekki eðlilegt ástand í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, ekki meðan þetta ástand varir. Ég er hins vegar algerlega sammála því að við þurfum að stíga varlega til jarðar og þar er betra forsjá en kapp.

Ég vil líka segja, því að hér lýsa hv. þingmenn áhyggjum af lífinu eftir höft: Auðvitað er það svo að þjóð með sjálfstæðan gjaldmiðil þarf að gæta sérstakrar varúðar. Ég held að við séum öll meðvituð um það sem hér erum í salnum. Að sjálfsögðu munum við horfa upp á sviðsmynd þar sem verða ákveðin þjóðhagsvarúðartæki þegar höftunum verður aflétt. Það er firra að ætla annað. Við bentum á þetta í vor þegar undirbúin voru lög um sérstakar takmarkanir á sérstökum krónueignum, eða hvað það frumvarp nú hét, sem varðaði einmitt útboð Seðlabankans og bentum þá á nauðsyn þess að settar yrðu reglur um vaxtamunarviðskipti sem svo var gert í framhaldinu og hefði kannski betur verið gert fyrr og samhliða öðrum ráðstöfunum. En það mál, sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði studdum, sýnir okkur líka að full nauðsyn er á því að hafa áætlun um það hvernig við sjáum fyrir okkur þessi þjóðhagsvarúðartæki. Þar hefur Seðlabankinn auðvitað lagt ákveðnar tillögur á borðið. Ég held að það sé mikil einföldun að benda á gjaldmiðilinn sem rót alls vanda. Við þurfum að horfa á það að mörg ríki á evrusvæðinu glíma við gríðarlegar sveiflur þrátt fyrir að um sé að ræða stóran gjaldmiðil og öflugan miðlægan seðlabanka. Ég held að rót vandans megi að mörgu leyti finna annars staðar. Þá vitna ég sérstaklega til þess sem við höfum verið að ræða á þessu þingi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem varðar regluverk fjármálageirans þar sem barist er við að setja æ fleiri reglur, æ stífara regluverk, skýrari ramma, oft mjög tæknilega; þar sem her sérfræðinga vinnur að því að setja reglur um fjármálageirann þar sem annar her sérfræðinga starfar og stjórnvöld sitja undir þrýstingi um að setja slíkar reglur til að koma böndum á fjármálageirann þannig að við göngum ekki aftur í gegnum kreppu á borð við þá sem við gengum í gegnum 2008. Bæði við með okkar krónu og evruríkin gengu í gegnum kreppu vegna þess að fjármálageirinn er orðinn svo gríðarlega stór hluti af vestrænum samfélögum. Og hann byggist ekki á raunverulegri verðmætasköpun heldur á viðskiptum á milli fjármálafyrirtækja þar sem verið er að taka mikla áhættu sem hefur mikil áhrif á líf almennings.

Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur, þegar við stjórnmálamenn sitjum svo með allt þetta regluverk sérfræðinganna, sem mörgum reynist erfitt að skilja eða átta sig á hvaða tilgangi þjónar, hvort við teljum að fjármálageirinn sem slíkur og það kerfi sem við höfum uppbyggt sé endilega það besta. Það á við óháð öllum gjaldmiðlum og öllu myntsamstarfi. Þetta er kerfi sem hefur gríðarleg áhrif á líf almennings allt í kringum okkur og snýst um það hvernig höndlað er með peninga á milli fjármálastofnana án þess að almenningur eða stjórnmálamenn fái neitt við ráðið. Ég held að það sé einföldun að vísa á gjaldmiðilinn en held hins vegar að það sé raunveruleikinn að smár gjaldmiðill muni alltaf þurfa ákveðið regluverk í kringum þjóðhagsvarúðartæki. Það er síðan val okkar hvaða leið er farin í þeim efnum.

Ég held að við getum ekkert litið fram hjá því að síðasta kreppa sem við gengum í gegnum var að stóru leyti kreppa sem var orsökuð í fjármálakerfinu og snerist um viðskipti með fjármagn milli fjármálastofnana. Og að lokinni kreppu er í raun og veru merkilegt hve litlar breytingar hafa orðið, þrátt fyrir alls konar aukna reglusetningu, skilyrði og annað slíkt hafa engar eðlisbreytingar orðið. Það er mjög merkilegt. Þegar við ræðum hér traust á stjórnmálum og stjórnvöldum, ekki bara á Íslandi heldur í öllum hinum vestræna heimi, þá er það ekkert skrýtið að það traust sé víða í lágmarki. Almenningur upplifir það að þessi heimur lifi allsjálfstæðu lífi, óháð aðgerðum stjórnmálanna. Þessi heimur hefur miklu meiri áhrif á líf fólks en mjög margt sem við stjórnmálamenn gerum.

Mér finnst mikilvægt að þessi sjónarmið séu viðruð hér. Þetta er sá heimur sem við erum þátttakendur í. Þetta er sá heimur sem við höfum fallist á að vera þátttakendur í, til dæmis í gegnum þátttöku okkar í EES-samstarfinu. Þar getum við sett niður ákveðin tæki til að verja okkur fyrir gjaldmiðlasveiflum og öðru sem lýtur að beinum viðskiptum sem lúta að krónunni en við getum ekki komist hjá því að horfast í augu við að það er bara einn hluti þessa veruleika.

Hvað málið sjálft varðar vil ég bara segja að lokum að þetta er, eins og ég sagði í upphafi, lítið skref, skref sem samt getur skipt máli, ekki síst fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er jákvætt. Ég fagna því líka að við fáum tíma til þess í efnahags- og viðskiptanefnd að fara yfir málið í ljósi þess að ekki er sami hraði á því og oft hefur verið í kringum haftamál þar sem mikill hraði hefur verið. Við fáum tækifæri til að fara aðeins ofan í málið og kynna okkur það. Það eru ýmis atriði sem þörf er á að skoða, til dæmis hvað varðar skilaskylduna, upplýsingaöflun og annað slíkt sem við þurfum að rýna í. Hins vegar sýnir þetta líka, staða aflandskrónueignanna og þetta mál, að afnám hafta sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töluðu hér um í upphafi kjörtímabilsins að væri kannski ekki endilega svo flókið mál — jafnvel voru nefndir sex til níu mánuðir í því samhengi — hefur reynst flóknara en menn sáu fyrir. Það lá auðvitað fyrir allt frá því að okkar áætlun í ríkisstjórninni sem sat 2009–2013 og setti fram áætlunina 2011, sem lengst af var nú unnið eftir þangað til ný áætlun var birt 2015.

Verkefnið er flókið. Ég held að allir geti hins vegar verið sammála um að við höfum að minnsta kosti reynt hér í stjórnarandstöðunni að greiða fyrir þessum málum þrátt fyrir algeran samráðsskort á þessu kjörtímabili, það sem lifir af þessu kjörtímabili, um þetta flókna mál og þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að hér hafa ýmsir hv. þingmenn reynt að gera lítið úr vandanum og lýsa jafnvel vantrausti á verk fyrri ríkisstjórnar sem þó setti þá áætlun sem unnið var eftir allt til 2015. Ég held að það væri jákvætt að menn gætu þá að minnsta kosti fallist á að það er mikilvægt að sýna hvert öðru sanngirni í þessu máli og horfa á þetta mál sem þverpólitískt úrlausnarefni og vinna að því með þeim hætti.