145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

fjölskyldustefna 2017–2021.

813. mál
[12:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég tel mjög mikilvægt að sé samþykkt af Alþingi og endurspegli samþykkt Alþingis á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna snýr ekki hvað síst að afkomu og húsnæði. Ég bendi hér á liði eins og A.1., átak gegn barnafátækt, þar sem er verið að leggja upp með sams konar hugmyndafræði og endurspeglaðist í húsnæðisbótunum þar sem við viljum jafna stöðu fólks, stöðu foreldra og barna, þannig að það byggist á efnahag þeirra en ekki annarri stöðu þeirra.

Síðan varðandi það sem hv. þingmaður vísaði til varðandi viðtal við fjármálaráðherra. Ég hef ekki heyrt það viðtal en ég hefði talið að allir þingmenn færu að stjórnarskrá og kysu í samræmi við sannfæringu sína gagnvart einstökum málum frekar en afstöðu gagnvart einstökum þingmönnum.