145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að ræða framkomu framkvæmdarvaldsins við löggjafarsamkunduna. Samkvæmt lögum á reglulegt þing að hefjast annan þriðjudag í september. Í starfsáætlun sem samþykkt var í vor kveður á um að þetta þing sem við erum á núna eigi að sitja til 2. september. Það var því undarlegt, fannst mér, á fundi efnahags- og viðskiptanefndar fyrir helgina þegar þrjú frumvörp voru send út til umsagnar og skilafrestur gefinn upp 1. september. Ég gerði athugasemd þar um, forseti, vegna þess að þinginu á að slíta daginn eftir. Mér finnst léttúðin sem einkennir framkomu framkvæmdarvaldsins við löggjafarsamkunduna komin út fyrir öll velsæmismörk.

Þegar ég nefni þetta á göngunum frammi verða viðbrögðin þessi: Hvað, við breytum því bara. Já, hva, við breytum bara lögum landsins til að þóknast okkur sjálfum eða meiri hluta þingsins. Er það ekki svo?

Við setjum lög til að farið sé eftir þeim. Við breytum ekki lögum fram og til baka þegar það hentar einhverjum í dag eða öðrum á morgun. Svo hentar kannski það þriðja þeim sama daginn eftir.

Þegar kemur að okkur sjálfum hins vegar breytum við bara tvist og bast ef það hentar þingmeirihlutanum, setjum bráðabirgðaákvæði hér og bráðabirgðaákvæði þar. Það þykir ekki einu sinni nauðsynlegt að gera þetta með einhverjum fyrirvara. Hér sitjum við í dag og í gær og fjöllum um og afgreiðum mál sem í rauninni liggur ekkert á.

Forseti. Er það eitthvað skrýtið að fólki þyki lítið til þessarar samkomu koma þegar ríkisstjórnin sýnir sjálfri sér og henni þessa vanvirðingu?