145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst margt hafa verið gripið úr mínum orðum og sett í rangt samhengi. Ég ætla að byrja á því að vitna í Jørgen Niclasen, fyrrverandi ráðherra í Færeyjum:

„Draumur fólks um að aðrir en stóru fyrirtækin kæmust að reyndist vitleysa, á uppboðinu fengu þeir stóru allt. Þeir sem hafa efni á því að tapa. Draumurinn um að fá rétt verð reyndist rugl. Verðið var of hátt og aðeins þeir risastóru sem vilja halda bátunum sínum gangandi fengu kvóta. Eitt fyrirtæki keypti 65% kvótans.“

Menn verða að gera upp við sjálfa sig hvort þeim þyki þetta vera góð vísbending, gott fordæmi fyrir okkur að elta eða ekki. Það sem ég gerði var að benda á að umræðan um uppboð eða ekki uppboð, uppboð eða veiðigjöld, er í raun og veru umræða sem snýst um hvernig við nálgumst þetta markmið, sem við erum þó sammála um, að það þurfi að greiða rétt verð fyrir aðgang að hinni takmörkuðu auðlind. Við höfum hingað til byggt upp kerfi sem byggir á veiðigjöldum. Það er ekki gallalaus leið en hér koma menn og segja: Markaðsleiðin er miklu, miklu betri og fullkomnari. Þegar ég kem upp og segi að það sé ekki gallalaus leið koma menn nánast og segja: Víst er það gallalaus leið, alla hnökra á þeirri leið er hægt að leysa.

Svo koma menn upp og segja: Við getum til dæmis hólfað uppboðið niður, hólfað niður landsvæði og boðið upp kvóta bara fyrir þetta landsvæði, það megi bara bjóða upp svona mikinn kvóta á þessum stað á landinu. Þá held ég að menn verði einmitt komnir út í ógöngur í stað þess sem við höfum í dag þar sem við erum með frjálsan, opinn markað, og það er ekki ríkið, eins og var sagt áðan, sem handvelur þá sem fá heimildirnar. Það var nú einu sinni þannig að það voru Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ásamt fleiri góðum þingmönnum á sínum tíma sem ákváðu frjálst framsal aflaheimilda, greiddu um það atkvæði hérna upp úr 1990. Frá þeim tíma hafa heimildirnar gengið kaupum og sölum. (Forseti hringir.) Menn hafa greitt fyrir þær heimildir sem þeir hafa. Það hefur enginn ríkissjóður handvalið þá sem hafa heimildirnar í dag.

Ég er tilbúinn til að halda (Forseti hringir.) umræðunni um þróun fiskveiðistjórnarkerfisins áfram, m.a. á þeim grundvelli að við nýtum markaðinn. (Forseti hringir.) En menn geta ekki einfaldlega lokað augum fyrir þeim göllum sem hverri leið geta fylgt.