145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

vegagerð í Gufudalssveit.

760. mál
[16:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, kærlega fyrir að taka þetta mál upp. Ég efast heldur ekki um vilja hæstv. innanríkisráðherra til þess að finna lausn á málinu. Ég held að það sé fullkomlega þverpólitísk samstaða um að þessi endaleysa í Gufudalssveit getur ekki gengið lengur. Íbúarnir eiga það ekki skilið. Þeir hafa beðið árum og áratugum saman eftir öruggum láglendisvegi út úr landshlutanum í samband við hringveginn. Það má ekki dragast lengur.

Þessi hugmynd með að bjóða út þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar held ég að sé mjög vel athugandi og mundi vilja mæla með því að það yrði skoðað í fullri alvöru. En þegar málið, sem var sett aftur á upphafsreit með nýju umhverfismati sem við fáum niðurstöðu í vonandi í september eða byrjun október og varðar deiluna um Teigsskóg, liggur fyrir (Forseti hringir.) er líka mjög mikilvægt að ef það eru frekari hindranir á því að leggja veginn um Teigsskóg (Forseti hringir.) fari menn þá i-leiðina svokölluðu, þveri Þorskafjörðinn og fari inn hann þaðan og yfir til Bjarkarlundar. Málið verður (Forseti hringir.) að leysast. Þetta getur ekki gengið svona lengur.