145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að hún eigi og þurfi að standa enn um sinn. Mér finnst það vera til nokkurs merkis um að þingmaðurinn sé kominn á ákveðinn flótta frá sínum málflutningi þegar hann fer að tala um það hvernig í veröldinni þetta geti komið frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, það sjónarmið sem ég er að rekja hér. Landbúnaður, hvar sem við berum niður í landbúnaði, er ekki settur á mælistiku frjálsrar verslunar. Ég vil líka benda hv. þingmanni á …(Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég rakti í framsögu með nefndarálitinu að markaðstilskipun Evrópusambandsins um landbúnaðarmál er full af slíkum inngripum sem við getum sagt að sé í ætt við þessa undanþágu, bara vegna þessa frammíkalls vildi ég taka þetta fram. Ég vil líka þá vekja athygli á því að í tvígang meðan hv. þingmaður sat í ríkisstjórn var búvörulögum breytt og þá var ekki gerð tilraun til að taka þessa undanþágu út þannig að við skulum skoða bæði orð og efndir í þessum samræðum.