145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og get tekið undir með henni að það er auðvitað mjög skrýtið að byrja stefnumörkun um samning þegar búið er að gera hann. Ég vil samt spyrja hv. þingmann aðeins út í orð hennar og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðarmálum. Ég var svolítið hissa að heyra að hv. þingmaður talaði með eftirsjá um framleiðslustýringarkerfið og að framleiðsla væri miðuð í kringum innanlandsneyslu. Við búum við þær aðstæður núna að fjölgun ferðamanna er að búa til ný tækifæri fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu og það er mjög mikilvægt að opna þessa grein og auka markaðsaðhald og leyfa framleiðendum að framleiða eins og þeir geta, líka til þess að bregðast við því að það er léleg afkoma á mörgum svæðum þar sem bændur gætu bætt við sig framleiðslu og keppt. Sér hv. þingmaður það virkilega sem skaða að bændur keppi í gæðum og framleiðslu?

Ég hlýt líka að spyrja, vegna þess að hv. þingmaður nefndi það ekki í sínu máli, um undanþágu Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum. Flokksbróðir hv. þingmanns hefur lýst ofbeldisaðgerðum Mjólkursamsölunnar gegn keppinautum sem sérstaklega jákvæðum afleiðingum af félagslegum rekstri. Eru það skilaboðin sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar að senda til sprota í mjólkuriðnaði eins og Örnu í Bolungarvík, kjördæmi hv. þingmanns? Er það í alvöru þannig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji halda sig við það ofstýringarkerfi sem tryggir bændum ekki fullnægjandi afkomu og neytendum mikinn kostnað og sé ekki tilbúin að hugsa neitt sem geti opnað eða losað um þetta kerfi?