145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel farið saman að vilja ekki þennan landbúnaðarsamning, þennan búvörusamning, og sjá það samt sem áður fyrir sér að styrkja landbúnað á Íslandi. (BN: Hvernig?) Ef það eru einhverjar fréttir fyrir hv. þm. Brynjar Níelsson þá er gaman að segja honum frá því. Tollvernd. Það hefur t.d. sýnt sig, svo ég svari spurningu hv. þingmanns, í ylræktinni að aukin samkeppni, lækkuð tollvernd, hefur verið greininni til góðs. Greinin og afurðirnar geta nefnilega vel keppt við erlendar afurðir. Fólk hefur valið íslensku gúrkuna, valið íslensku tómatana, fram yfir hitt. Og ylræktin stendur vel og blómstrar. Mér finnst það vera vantrú á íslenskum afurðum að halda samkeppni frá. Alger vantrú. Þið eruð með þessu að segja að þetta sé ekki nógu gott og að samkeppnin muni ekki vera góð fyrir þessar afurðir, þessu verði rutt út af borðinu um leið og fólk getur bara um frjálst höfuð strokið. Það er það sem felst í þessu. Ég hef meiri trú á íslenskum landbúnaði en þetta. Um það erum við hv. þingmaður þá bara ósammála.