145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið mig ef hann skildi mál mitt þannig að ég væri eindreginn talsmaður beinnar framleiðslustýringar. Ég hef alltaf verið opinn fyrir því að skoða það að stuðningsfyrirkomulagið byggði eftir atvikum á öðrum þáttum, að minnsta kosti að hluta til. Það er ekkert vandamál að útfæra það þannig ef við t.d. yrðum sammála um að einhverju leyti væri þetta stuðningur við búsetu og byggð í sveitum. Það væri hægt að hafa bara beinar fastar greiðslur á býli, á hvert lögbýli þar sem er heils árs búseta og einhver lágmarkstilgreind búskaparumsvif. Það er mikill munur á því og að fara yfir í hitt að útfæra stuðninginn þannig að hann sé beinlínis framleiðsluhvetjandi. Ég hef áhyggjur af því. Vegna þess að við erum með afar lítinn og viðkvæman markað og lítið þarf til að raska jafnvæginu þar. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að ef þú tekur tiltekið fjármagn, setur það í pott og síðan er opið inn í þann pott fyrir alla þá sem setja á fé og framleiða kjöt, að það er framleiðsluhvetjandi. Þú stækkar þinn hlut af kökunni með því að auka framleiðsluna. Af því hef ég áhyggjur vegna þess að ég hef ekki þá tilfinningu að það sé það sem við þurfum á að halda. Ég er ekki endilega að spá því að framleiðslusprenging verði eða sauðfé muni stórfjölga en sú hætta er þarna til staðar. Einhvers konar hlutlaust stuðningsfyrirkomulag væri þó að minnsta kosti laust við þá hættu.

Mikil ósköp, öll nýsköpun, fjölbreyttari atvinnustarfsemi og fleiri stoðir undir byggðinni í strjálbýlinu eru náttúrlega afar mikilvægar. Í því sambandi er vöxtur ferðaþjónustunnar ákaflega ánægjulegur, við mættum að vísu standa okkur betur í að dreifa henni betur um landið og auðvelda fjarlægari landshlutum að vera þátttakendur í þeim vexti, svo sem um Vestfirðina, norðausturhornið o.s.frv. Það vill svo til að í mörgum tilvikum eru það einmitt líka sauðfjárræktarsvæði sem liggja hvað fjærst stóru miðjunum í landinu. Það væri vissulega hægt að gera ýmislegt betur í því.