145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður vekja máls og varpa ljósi á marga þætti þessa máls sem enginn hefur tekið upp í umræðunni, sem enga áherslu fékk hjá þeim sem hafa mælt fyrir málinu. Hv. þingmaður talaði um eplin frá Kína og velti því fyrir sér upphátt hér í ræðustól af hverju þau væru svona fersk þegar þau koma þennan langa veg og taldi kannski að það væri ekki nógu grunnt vistspor. Ég er alveg sammála henni um það. Alveg eins og hún veltir fyrir sér hvort eplin frá Kína séu með einhverjum hætti meðhöndluð með efnum sem við helst viljum ekki borða, þá eru mjög margir aðrir um allan heim sem velta hinu sama fyrir sér. Það er að verða vitundarbreyting. Menn eru farnir að hugsa eins og hv. þingmaður hugsaði upphátt í ræðustól áðan. Þá veltir maður fyrir sér hvers konar aumingjaskapur það er af hálfu þeirra sem hafa stýrt þessum málum að hafa ekki getað markaðssett Ísland og íslenskan landbúnað einmitt út frá því sem hv. þingmaður talaði um áðan. Hér er notkun tilbúins áburðar svo lítil að áburðarmengun mælist varla. Hér er nýting eiturefna í landbúnaði algerlega í núllpunkti. Hér er landbúnaðarframleiðsla miklu vistvænni en annars staðar. Á köflum má segja að hún sé nánast lífræn í mörgum efnum.

Ég held að hérna hafi bændaforustunni og þeim parti framkvæmdarvaldsins sem fer með þennan málaflokk mistekist hrapallega. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það? En auðvitað geta Vinstri græn sem græn umhverfishreyfing ekki samþykkt þennan samning. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega sjónarmið í loftslags- og umhverfismálum. Hér hefði nefnilega verið frábært tækifæri til að taka höndum (Forseti hringir.) saman við bændur á Íslandi, eins og þeir vilja, til að vinna að þeim markmiðum (Forseti hringir.) sem við höfum sett okkur sem þjóð. En í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að skerpa áherslur, það eru engin tímamörk og engin viðmið. (Forseti hringir.) Þetta er hraksmánarleg vinna, finnst mér.