145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:32]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst alveg óþarfi af hv. þingmanni að vera með þessi gífuryrði og stóryrði, sérstaklega í ljósi þess að ég veit ekki til þess að hann hafi hlýtt á ræðu mína. Í henni ræddi ég það sérstaklega og lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi að ef hugur manna stæði til að gera samning til þriggja ára, eins og mér finnst að megi ráða af nefndaráliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar, þá eigi menn bara að segja það og breyta frumvarpinu þannig. Við hv. þingmaður erum alveg sammála um að það eigi þá að vera skýrt í lögum.

Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju hv. þingmaður styður samninginn efnislega vegna þess að hann hlýtur að gera það, hann hlýtur að styðja samninginn efnislega úr því að hann leggur til að hann gildi næstu þrjú árin. Þar greinir okkur kannski á vegna þess að ég er ekki eins sannfærð um að efni samningsins bjóði upp á það að hann gildi yfir höfuð til þriggja ára. Þar greinir okkur á.

Hvað seinni spurninguna varðar um möguleika næstu þinga, næstu ríkisstjórna og þar fram eftir götunum til þess að taka upp þennan samning, þá er það auðvitað svo að bæði rammasamningurinn og þessir þrír samningar sem gerðir eru eru gerðir með fyrirvara um breytingar á nauðsynlegum lögum. Auðvitað getur Alþingi alltaf breytt lögunum. Það breytir því hins vegar ekki að svona langtímsamningar, ég er þá að tala um til tíu ára, skapa mönnum einhvern rétt. Ég held að ekki verði litið fram hjá því. Þegar menn hafa undirritað samning við ríkið til tíu ára skapar það þeim einhvern rétt jafnvel þótt þessi fyrirvari sé fyrir hendi. Það gæti nefnilega verið erfitt að breyta lögum þannig að það yrði veruleg röskun á högum þeirra sem njóta samningsins. Það er einmitt þess vegna sem ég er á móti því að samningar séu gerðir til svona langs tíma eins og þessi samningur.