145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:14]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka félaga mínum úr atvinnuveganefnd, hv. þm. Kristjáni L. Möller spurninguna. Þetta hefur oft komið til tals í nefndinni eins og hv. þingmaður veit. Við getum reiknað þetta eins og við viljum. Ef við lítum á landbúnað sem hefðbundinn útflutningsatvinnuveg þá er það ekkert spennandi í dag þegar gengið er eins og það er og enn að styrkjast. Það lítur ekki vel út, ekkert frekar hjá landbúnaðinum en hjá sjávarútveginum. En ef við erum að styrkja landbúnaðinn og einhver umframframleiðsla er seld úr landi og þar skapast gjaldeyrir þá er ég hræddur um að við getum reiknað það á margvíslegan hátt. Það eru afleidd störf, hvað kostar að framleiða þetta og hvert sá kostnaður fór. Hvað kostaði það mikinn gjaldeyri? Ég hugsa þetta kannski þannig. Hvað kostar það ef við erum að framleiða kindakjöt? Hvað kostar að framleiða það innan lands? Hvað fáum fyrir það ef við seljum það? Hvað kostaði þetta mikið í gjaldeyri? Hvað kostaði þetta mikinn áburð, fóðurbæti eða hvað? Ég vil reikna það þannig. Meðan við erum að stilla af einhverja framleiðslu og það skapar gjaldeyri þá held ég að það sé ekki það versta sem gerist, þótt það sé á pari. Ég græt það ekki.