145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég fagna því og var orðinn hálf efins um að hv. þingmaður vildi styrkja landbúnað með þessum hætti eða með þessari upphæð. Ef ég skil hana rétt er hún sátt við upphæðina og sammála því að við þurfum að styrkja íslenskan landbúnað og ég kannski ítreka það, þessir 13,7 milljarðar sem verða á næsta ári, ég skil hana þannig að hún sé sammála þeirri upphæð. Hún vill reyndar útdeila þeim öðruvísi. Hún segist vilja beina styrkjum óháð framleiðslu, að bændur fái sína dúsu hvort sem þeir eru að framleiða eða ekki. Mig langar að spyrja hvort ég hafi skilið það rétt að hún væri til í að styrkja þá þannig, alveg óháð framleiðslu. Þá eru það væntanlega einhver lögbýli sem fá. Hvernig sér hún það fyrir sér, við hvað mundi hún miða þá upphæð?

Hv. þingmaður er ekki á því að tryggja þurfi að hægt sé að framleiða mjólk á öllu landinu, að tryggt sé að þeir sæki mjólk á alla bæi. Hv. þingmaður bendir á að nær sé að styrkja á einhvern annan hátt þá bæi sem eru afskekktir eða ekki alveg í nágrenni við næsta mjólkurbú. Ekkert sem stýrir sauðfjárrækt á þeim svæðum sem hentar best: Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé þá ekki þannig að þegar styrkurinn er í því formi sem hann er þarna, þegar hann miðar við hvert kíló, hvort hann stýri ekki einmitt framleiðslunni á því svæði þar sem hagstæðast er að framleiða, væntanlega þau svæði sem liggja best við. (Forseti hringir.) Mig langar að fá staðfestingu á því hvort ég hafi ekki örugglega skilið hana rétt.