145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra er vinsæll í dag, (Gripið fram í: Nú?) enda heilbrigðismálin ofarlega í hugum landsmanna. Ég er á nokkuð svipuðum slóðum og hv. þm. Oddný Harðardóttir. Fyrir liggur að í vor tóku fulltrúar allra flokka við stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar þar sem 86.761 Íslendingur skrifaði undir áskorun til stjórnvalda um að framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu yrðu aukin í 11%. Það var heilmikið rætt um þá tölu, hvort það væri rétta viðmiðunartalan. Undir þetta skrifuðu 86.761 Íslendingur. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur réttilega sagt að framlög hafi verið aukin. Það er rétt. En mig langar að spyrja: Þegar við ræðum þessi 11% er átt við heildarútgjöld, ef við miðum bara við opinberu útgjöldin af landsframleiðslu ættu þau kannski að vera rúmlega 9% af vergri landsframleiðslu. Allir fulltrúar allra flokka tóku við þessari söfnun, tóku henni vel og sögðust allt vilja gera. En síðan hefur ríkisfjármálaáætlun til fimm ára verið samþykkt sem snýst um það hvernig þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja skipta þjóðarkökunni til næstu fimm ára. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað gerir fjármálaáætlunin, því að ekki er alveg einfalt að lesa það út úr áætluninni, ráð fyrir að hlutfall til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu verði árið 2021 þegar áætluninni lýkur? Hvert verður hlutfall til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu? Er það ekki mikilvæg tala til að hafa í pólitískri umræðu þegar rúmlega 86 þúsund Íslendingar (Forseti hringir.) hafa skrifað undir áskorun í fjölmennustu undirskriftasöfnun sögunnar um að þetta skuli vera hlutfallið til heilbrigðismála?