145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

mótun stefnu til að draga úr afleiðingum vímuefnaneyslu.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og meðtek hamingjuóskirnar og þakka hv. þingmanni einnig fyrir hans starf. Ég geri ráð fyrir því að við munum eiga umræðu um þessa skýrslu fljótlega á þingi. Og af því að hér spyr hv. þingmaður hver verði næstu skref þá eru þau í mínum huga þau að ég vil gjarnan leggja þetta plagg og fylgja því úr hlaði við þingið og fá umræðuna um það, heyra sjónarmið þingsins til skýrslunnar, starfsins og þeirra tillagna sem þar liggja fyrir. Þær eru af mörgum toga, þær eru 12 alls, og alveg augljóst að þar er um að ræða málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða í þessum málaflokki. Grundvallaratriðið í þeim efnum í mínum huga er það sem mér finnst endurspeglast ágætlega í skýrslunni, þ.e. að við förum að nálgast þetta meira sem heilbrigðistengt verkefni fremur en einhverja glæpastarfsemi þegar við glímum við afleiðingar vímuefnaneyslunnar. Þess vegna hefur mér þótt vænt um það þegar ég hef lesið skýrsluna að sjá þá áherslu sem snýr að skaðaminnkandi úrræðum í þessum efnum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta snertir fleiri ráðuneyti. Ég hef þegar komið skýrslunni til innanríkisráðherra og átt við hana umræðu um þeirra þátt í þeim efnum. En það sem ég geri ráð fyrir að gerist næst að lokinni umræðunni er að við setjumst yfir skýrsluna, tillögurnar, umræðuna í þinginu, vinnum úr því og reynum að koma til framkvæmda einhverjum af þeim verkefnum, tillögum, sem þarna eru sett niður og eru mörg hver hið besta mál.