145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Bændur eiga skilið betri samning en þann sem við erum að samþykkja hér. Neytendur eiga sömuleiðis skilið betri samning en þann sem við erum að samþykkja. Ég tel ekki heldur hægt að samþykkja svo viðamikinn samning, 200 milljarða, til tíu ára. Það kom fram fyrir fagnefndinni að miðað við það hvernig samningurinn liggur fyrir sé verið að samþykkja hann til tíu ára. Ég tel þess vegna að hér sé Alþingi að fara út yfir það sem því er heimilt. Hér er verið að framselja gríðarlega mikið vald út fyrir veggi Alþingishússins. Ef þessi samningur verður samþykktur mun það þýða að við getum ekki breytt búvörulögum næstu tíu árin (Gripið fram í: Þrjú ár.) án samþykkis Bændasamtakanna. (Gripið fram í: Þrjú ár.) Við getum heldur ekki gert alþjóðasamninga um lækkun á tollum á innfluttum landbúnaðarvörum til næstu tíu ára án samþykkis Bændasamtakanna. Ég tel þetta óheimilt samkvæmt stjórnarskrá Íslands, hana ber að virða og þess vegna get ég ekki samþykkt þennan samning. (Gripið fram í.)