145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér afhjúpar hv. þm. Helgi Hjörvar vanþekkingu sína á þessu máli, algera vanþekkingu, þegar hann segir að það sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að afnema undanþáguna frá samkeppnislögum. Þessi sami hv. þingmaður sat í ríkisstjórn í hvað, sex, sjö ár? Hann gerði ekkert í málinu þá. (Gripið fram í: Jú, jú, við lögðum …) Það var bara ekkert á dagskrá. Af hverju kláruðu þeir ekki málið þegar þeir voru í ríkisstjórn? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Nei, þetta er einn angi af þessum billega málflutningi sem er stundaður hérna í einhverjum popúlisma. Ég er algerlega sammála því að við eigum að koma mjólkuriðnaðinum, þ.e. þeim hluta sem ber, undan undanþágunni frá samkeppnislögunum, algerlega. Það er það sem verður skoðað núna í þessu endurskoðunarferli. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) En það þekkja allir sem kynna sér málið og hafa einhvern snefil af þekkingu (Gripið fram í.) og vilja til þess að nálgast þetta málefnalega að þetta er ekki hægt að gera yfir eina helgi heldur þarf það að hafa undanfara, vegna þess að það kallar á ýmsar aðrar breytingar sem tengjast (Forseti hringir.) mjólkurbúskap í landinu. (Gripið fram í.)