145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hljómar aðeins betur, ég held að við séum bara tíu úr Suðurkjördæmi. — En ég vil segja að landbúnaður er eins og hver önnur atvinnustarfsemi, hver annar atvinnuvegur. Það er fyrirsjáanleiki sem þarf. Að kjósa um eitt ár í einu, að landbúnaðurinn verði í óvissu með næstu þrjú ár um hvað verður, ég tel það ekki gott. Við erum með rammasamning til tíu ára með endurskoðunarákvæðum, við erum að lögfesta ákveðið samráð um hvernig við getum endurskoðað þennan samning, einmitt það samráð sem mest hefur verið kallað eftir og sagt að hafi ekki verið nægt við þessa samningagerð. Ég get ómögulega stutt það að bændur verði í sömu óvissunni næstu þrjú ár. Það er fyrirsjáanleiki (Forseti hringir.) sem þarf í landbúnaði eins og annarri atvinnustarfsemi.