145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ágætisandsvar og tilefni fyrir mig að svara þessum hugleiðingum hv. þingmanns. Hann minntist á sýklalyfjanotkun, sýkingarhættu og annað. Við deilum þeim áhyggjum, ég og hv. þingmaður. Við fórum einmitt mjög gaumgæfilega yfir þessi atriði í nefndinni. Við fengum sérfræðinga á því sviði og rýndum þetta mjög vel.

En niðurstaða okkar í meiri hlutanum sem undir álitið rita er að þarna sé jú ákveðin hætta á ferðum. En eins og fram kom í ræðu minni áðan fer mikil vinna fram núna hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu og í ráðuneytunum okkar til að vinna með þessa stóru heilbrigðisógn. Með auknum innflutningi á matvöru sem við þurfum að fara í, vegna þess að skortur er á ákveðnum tegundum hér á landi og við viljum að neytendur fái aukið vöruúrval og lægra verð, það er sjálfsagt að hugsa í þá átt, þá er lykilatriðið gott eftirlit til að vega upp á móti þessari hættu. Það er vel gerlegt. Við höfum sýnt það hingað til að við erum með mjög góðar stofnanir hér á landi. Við erum með gott fagfólk. Við erum meðvituð um þessa hættu. Við erum með þessar alþjóðlegu stofnanir sem eru að vinna í þessum málum alþjóðlega, þetta er ekkert sérverkefni okkar hér á Íslandi, þetta er ógn úti um allan heim, þessar matvælasýkingar og matvælaöryggi. Jú, ég hef áhyggjur, ég ætla ekki að segja nei við því eins og hv. þingmaður, en ég tel að við getum unnið með þetta og hagsmunirnir séu það (Forseti hringir.) miklir að það vegi upp á móti þeirri hættu sem við stöndum frammi fyrir, vissulega.