145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:34]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég furða mig örlítið enn á þeirri heimsmynd að matvæli framleidd í Evrópusambandinu séu hættulegri en innlend matvæli. Vissulega komu fram ýmsar skoðanir fyrir nefndinni, það voru oft líka hugleiðingar og verið að velta hlutunum fyrir sér. Mér finnst eins og í ræðu hv. þingmanns sé mjög lítið gert úr því að treysta íslenskum neytendum fyrir því að velja sín matvæli, matvæli sem sannarlega eru nú þegar í boði á landinu, þ.e. innflutt matvæli, og hér sé verið að fara, eigum við að segja ansi varlega til þess að vernda neytendur frá því að gera mögulega vitleysur.

Mig langaði líka að heyra álit hv. þingmanns á þeirri skoðun sem kom fram fyrir nefndinni að hætta á smiti og sjúkdómum væri fyrst og fremst af umgangi manna og fólks á milli landa. Nú er staðreyndin sú að tugir þúsunda Íslendinga fara til útlanda á hverju ári, jafnvel til Evrópusambandsins þar sem þeir neyta jafnvel matvæla sam framleidd eru í þeim löndum og koma síðan aftur til baka án þess að fara í sóttkví. Milljónir útlendinga koma til landsins án þess að fara í sóttkví og valsa um landið. Mig langaði til þess að fá álit hv. þingmanns á því hvernig tollasamningur um innflutning á matvælum sem að miklu leyti eru þau sömu og nú þegar (Forseti hringir.) eru flutt inn getur haft úrslitaáhrif á heilbrigði þjóðarinnar.