145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:41]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að byrja með langar mig að segja að mér finnst afar mikilvægt að hlutleysa þetta einmitt ekki og smætta þetta ekki niður í að líta bara á svona samning frá viðskiptalegum sjónarhornum. Ég hef reynt að tala fyrir því á Alþingi að við verðum að skoða málin í heildarsamhengi. Það hef ég reynt að gera og mun halda áfram að gera. Ég held að við verðum að taka málin út frá víðara samhengi en bara hinu viðskiptalega.

En til að ég reyni engu að síður að svara spurningu hv. þingmanns varðandi tolla þá hef ég enga sérstaka prinsippskoðun hvað varðar tolla almennt. Ég er alltaf alveg til í að skoða tolla, ég held að stundum geti þeir komið að gagni, stundum sé alveg hægt að færa rök fyrir því að þeir eigi kannski ekki við en það þurfi alltaf að skoða út frá samhengi hlutanna hverju sinni. Þegar um svona mál er að ræða þar sem málið hefur í rauninni samfélagsáhrif, þ.e. það að við breytum tollum og gerum viðskiptasamninga getur haft áhrif á allt samfélagið og allt umhverfið, þá verðum við hreinlega að taka (Forseti hringir.) fleiri breytur inn í en bara tolla.