145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattafsláttur af ferðakostnaði til og frá vinnu.

831. mál
[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar hvað skattkerfið og einstaka þætti þess varðar er að hafa það einfalt, gagnsætt og með sem fæstum frádráttarliðum með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi. Nú er það ekki svo að ég sé á móti sérhverri undanþágu, en ég hef svona viljað reyna að fylgja þessari meginreglu. Hér er spurt hvort ég hafi í hyggju að leggja fram frumvarp þannig að þeim sem ferðast langar leiðir til og frá vinnu óháð ferðamáta innan tiltekins og skilgreinds atvinnusvæðis innan lands verði veittur afsláttur af tekjuskatti.

Ég verð að segja svona til að byrja með að ég á erfitt með að sjá að sú hugmynd sé í anda þeirra sjónarmiða sem ég rakti áðan. Ég tel að hún yrði nokkuð flókin í framkvæmd, ekki síst varðandi það að gera engan greinarmun á milli ferðamáta, en við mundum þurfa að kanna það út frá ríkisstyrkjareglum Evrópska efnahagssvæðisins hvernig hægt væri að hrinda þessu í framkvæmd. Það má líka spyrja sig hvort afsláttur af tekjuskattskskerfinu sé skilvirkasta leiðin til að ná því markmiði sem að er stefnt. Ég mundi vilja skoða aðrar leiðir ef fyrir því væri raunverulegur pólitískur vilji á þinginu að styrkja sérstaklega afskekktar byggðir vegna þessara sjónarmiða, hvort aðrar leiðir en afsláttur af tekjuskatti gætu orðið skilvirkari. En ég verð að viðurkenna að ég hef svo sem ekki verið að velta upp ólíkum valkostum í því sérstaklega.

Ferðakostnaður launþega til og frá vinnu á eigin bifreið er alla jafna borinn af launagreiðandanum í formi ökutækjastyrkja sem hækkar með þeirri vegalengd sem ekin er. En með ökutækjastyrk er átt við þær greiðslur sem launþegi fær frá launagreiðanda fyrir að nota eigin bifreið í þágu launagreiðandans og sjálfur borið kostnað af. Hér getur bæði verið um að ræða að greidd sé föst, mánaðarleg eða árleg fjárhæð eða að greitt sé samkvæmt kílómetragjaldi fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu.

Í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að heimilt er að færa frádrátt á móti ökutækjastyrk vegna kostnaðar sem launþegi hefur tekið á sig vegna akstursins. Ég hef tekið saman upplýsingar um það hvernig tekjur einstaklinga af ökutækjastyrk fyrir tekjuárin 2011–2015 hafa verið að þróast. Að meðaltali hefur frádráttur frá tekjuskatti einstaklinga, ökutækjastyrknum, numið um 70%. Árið 2015 var ökutækjastyrkur 10,6 milljarðar og tæplega 7,4 milljarða kostnaður á móti.

Önnur leið atvinnurekanda gagnvart launþega sem þarf afnot af bifreið starfsins vegna er að láta honum í té tiltekna bifreið. Við það skapast skattskyld hlunnindi hjá launþeganum hafi hann ótakmörkuð yfirráð yfir bifreiðinni. Það þýðir að launþeginn getur líka nýtt hana til einkanota og er til þess tekið í hlunnindamatinu. Einnig er rétt að nefna greiðslur dagpeninga og frádrátt frá þeim. Dagpeningum sem greiddir eru vegna ferðalaga launamanna á vegum launagreiðenda er ætlað að standa undir kostnaði launamannsins vegna fjarveru frá heimili sínu, svo sem gisti- og fæðiskostnaður og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlýst. Að meðaltali hefur frádráttur frá tekjuskatti einstaklinga vegna greiðslu dagpeninga numið um 98%, eða á árinu 2015 voru það þá dagpeningar upp á 12 milljarða rétt rúma, frádráttur upp á 11,7 milljarða.

Ég hef rakið í stuttu máli hvaða leiðir við höfum haft í skattkerfinu til þess að komast til móts við launþega sem verða fyrir kostnaði í tengslum við starf sitt. Segja má að þau tilfelli sem ég hef verið að rekja séu að vissu leyti dálítið frábrugðin því sem hv. þingmaður spyr um, en ég hef komið inn á að þetta gæti orðið nokkuð flókin hugmynd í framkvæmd og hún gengur dálítið á skjön (Forseti hringir.) við þau meginmarkmið sem ég hef rakið hér.