145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurnýjun ökuskírteina eftir 65 ára aldur.

825. mál
[16:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Rýmkun að tilteknu marki var gerð 2015. Ég hygg að mjög æskilegt sé að átta sig á því hver reynslan hefur verið af því. Ég trúi ekki öðru en að hún hafi verið mjög góð og þá eru alveg rök til þess að ganga lengra í þeim efnum. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir að það gildir ekki það sama um hvern einn og einasta, fólk er mjög misjafnlega á sig komið. En hugmyndin á bak við þetta og hugsunin er sú að hér er um öryggisreglur að ræða. Einhvern veginn þurfum við að hafa þær, en þó þannig að það sé ekki verið að hindra of mikið hinn venjulega borgara við að geta neytt réttinda sinna og komist ferða sinna. Það þarf að huga að því og ég held að það megi alveg til sanns vegar færa að það þurfi að endurskoða svona reglur með miklu reglulegra millibili en við höfum séð. Það kom mér satt að segja töluvert á óvart að svona stórar breytingar hefðu ekki orðið síðan 1997. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst þetta vera atriði sem væri full ástæða til að skoða og fara yfir og leggja til breytingar.