145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurbætur á Vesturlandsvegi.

830. mál
[16:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu tímabært að ræða endurbætur á Vesturlandsvegi og það ástand sem er að skapast vegna mjög aukins umferðarþunga um Hvalfjarðargöngin. Við erum öll hjartanlega sammála um að það er löngu tímabært að stíga einhver markverð og ákveðin skref varðandi það að koma Sundabrautinni á sem samgöngubót. Ráðherra og fleiri hafa viðrað það og velt fyrir sér að þá samgöngubót eigi hugsanlega að taka inn í einkaframkvæmd. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ef það verður gert væri Norðvesturkjördæmi eina kjördæmi landsins sem hefði allar sínar samgöngur háðar gjaldtöku við höfuðborgina. (Gripið fram í.)

Vitnað er í samgönguáætlun sem ekki hefur verið samþykkt og liggur í samgöngunefnd. Þeim spurningum sem hér er varpað fram er svarað af hálfu ráðherra með því að vísa þeim inn í framtíðina. (Innanrh.: Tólf ára áætlun.) Samgönguáætlun (Forseti hringir.) hefur ekki verið samþykkt, þó að mikið hafi verið kallað eftir henni í samgöngunefnd og margoft boðið upp á að taka hana úr (Forseti hringir.) nefndinni þá hefur það ekki gerst enn þá. Það er umhugsunarefni hvers vegna stjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) þora ekki að stíga skrefið til fulls og sýna þessa samgönguáætlun hér í þinginu.