145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er rétt, við ræddum nokkuð stöðu áheyrnarfulltrúa. Því miður kom það upp að það var málum blandið hvernig tilhögun og hvaða réttindi áheyrnarfulltrúar hefðu. Við tökum fram mjög skýrt að þeir hafi málfrelsi og tillögurétt, ég tel það rétt og eðlilegt og tek undir með hv. þingmanni að þannig á það að vera og á ekki að vera málum blandið hvernig það er. Hvernig eða hvort þeir eigi að hafa fullgilda aðild, það var einnig rætt, en niðurstaðan varð sú að við töldum ekki rétt á þessu stigi að leggja til breytingar á skipun stjórnarinnar. Það var gert með vísan til þess að það mundi riðla valdahlutföllum sem ákveðin voru þegar þjóðgarðurinn var stofnaður á sínum tíma, en þar skipti mestu að það var gert með sátt allra sveitarfélaganna á landinu.