145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur ræðu hennar. Ég get verið sammála því sem þar kom fram að þetta frumvarp og þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir eru til mikilla bóta fyrir þjóðgarðinn. Það sem vakti áhuga minn á að eiga orðastað við þingmanninn var umfjöllun um staðsetningu skrifstofu framkvæmdastjóra þjóðgarðsins. Ég get alveg tekið undir þá niðurstöðu sem hér varð að eðlilegast sé að stjórnin taki ákvörðun um það. Þetta er starfsemi sem ætti í raun að geta hreyfst til eftir aðstæðum hverju sinni og verið á hvaða starfsstöð þjóðgarðsins sem er.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn út í það fyrirkomulag sem nú er til staðar. Eitt af því sem hefur vakið hvað mesta furðu mína í íslenskri stjórnsýslu er þegar ég áttaði mig á því að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins er í raun í einmenningsstarfsstöð á höfuðborgarsvæðinu. Ýmsar stofnanir umhverfisráðuneytisins eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, skrifstofur annarra þjóðgarða eru á höfuðborgarsvæðinu, þannig að það lægi þá alla vega beinna við að þessi skrifstofa væri staðsett í samstarfi við aðrar stofnanir. Víðast hvar úti um landið, þar sem eru einmenningsstarfsstöðvar, er reynt að koma þeim fyrir í samkrulli við aðrar, í einhvers konar þekkingarsetrum. Ég vil því spyrja hvort þetta tiltekna atriði hafi ekkert komið til umræðu í nefndinni eða í umfjöllun nefndarinnar.