145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður setur hér fram mjög góðar spurningar. Maður er fljótur að komast að því þegar maður situr í stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum hversu miklir möguleikar það eru fyrir slíka einingu að skapa sér tekjur. Þegar við blasir jafn mikill ferðamannastraumur og er á Þingvöllum skila sér auðvitað gríðarlegar tekjur í kassann en þar verða þá líka tólin og tækin að vera fyrir hendi til þess að gera það eins og lögin um Þingvallaþjóðgarð hafa gert okkur kleift að gera, þ.e. setja upp innheimtu fyrir bílastæði, gjaldtöku vegna köfunar í Silfru, vera með gestastofur, sölu á fróðleik o.s.frv.

Síðan er þetta auðvitað tækifæri fyrir okkur til að stýra mannfjöldanum til að við getum umgengist þessa staði með sjálfbærum hætti. Við getum nefnt Reykjadal fyrir ofan Hveragerði sem dæmi um stað sem er ekki verið að umgangast með sjálfbærum hætti. Þar er verið að ganga á náttúruna. Af veikum mætti hefur verið reynt að sporna við því, með uppbyggingu á pallakerfum og lagfæringum á stígum. Það er augljóst hverjum þeim sem komu þar fyrir tíu árum og svo aftur núna. Ég fór þangað sjálfur stundum á virkum degi, tjaldaði eina nótt og mætti síðan bara til vinnu daginn eftir vegna þess að þetta er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en það er algerlega útilokað að það sé hægt að upplifa þann stað í dag með sama hætti og maður gerði fyrir tíu árum. Hann er farinn sem slík upplifun. Það segir okkur að við þurfum að stýra uppbyggingunni og vera með það alveg (Forseti hringir.) klárt hvert markmiðið er. Annars enda þessir staðir allir eins og Feneyjar sem eru algerlega í niðurníðslu út af straumi ferðafólks.