145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi gjaldtöku þá held ég að margt af því fólki sem hingað kemur sé venjulegt fólk sem ferðast eins og við Íslendingar ferðumst til annarra ríkja. Þetta er fólk í fríi eða er að fara á ráðstefnur og það hefur kannski ekkert allt of mikil fjárráð en það mikil fjárráð að það hefur efni á því að fara á milli landa í sumarfríinu sínu. Við erum vön því að greiða allra handa skatta sem tengjast ferðaþjónustu þegar við ferðumst erlendis. Það hvarflar ekki að okkur að hætta við að fara til Rómar af því að við þurfum að borga gistináttagjald. Ísland er ekki Róm, en Ísland hefur sannarlega sérstöðu sem mjög fá önnur lönd í okkar heimshluta hafa og það yrði ekkert minna eftirsóknarvert að koma hingað þrátt fyrir komugjöld. Ég tel að við eigum líka að þróa betur gistináttagjaldið og það eigi að renna til þeirra sveitarfélaga þar sem gistingin er, að það eigi að verða gjaldstofn fyrir sveitarfélögin.

Þá komum við að því að það eru stór sveitarfélög sem eru jafnvel mjög fátæk sveitarfélög með mikil og merkileg landsvæði að taka á móti gríðarlegum fjölda ferðamanna. Við verðum að mæta þeim svæðum. Þar mundi náttúrlega gistináttagjaldið að einhverjum hluta gagnast þeim, en síðan þyrftum við með komugjöldunum, hvernig svo sem við millifærum fjármunina, að líta til þess hver fjöldi gesta er inn á svæðið, ekki bara fjöldi gistinátta, og hvernig hægt er að tryggja að sveitarfélögin geti byggt upp innviði sína þannig að það verði ávinningur fyrir þau að fá þennan (Forseti hringir.) aukna fjölda ferðamanna en ekki bara helsi og enn meira álag á bágan fjárhag sumra þessara svæða.