145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér stutt í þessa umræðu. Mér finnst hún áhugaverð og við ræðum umhverfismál of lítið á þinginu að mínu mati. Þetta frumvarp tekur á afmörkuðum þáttum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Við erum að tala um stærsta þjóðgarð í Evrópu, ríflega 13 þúsund ferkílómetra, sem nær yfir ótrúlega margar perlur sem við Íslendingar eigum, aðrar sem við eigum minna í. Það vert að gefa því gaum og huga að því hvernig við getum sinnt því svo vel sé að þessi perla okkar verði ekki fyrir varanlegu tjóni, það horfir auðvitað þannig við núna þegar lítið hefur verið gert í innviðauppbyggingu. Framtaksleysi þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd hefur því miður verið ótrúlega mikið. Þrátt fyrir að betur hafi árað hefur það ekki skilað sér á viðunandi hátt og hafa menn borið það fyrir sig að ekki hafi verið hægt að fara í verkin. En það hefur að sjálfsögðu líka með stjórnsýsluna að gera.

Hér er verið að fjalla um stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem farið er aðeins yfir þegar hann var stofnaður og yfir valddreift stjórnfyrirkomulag sem var uppleggið þar sem sitja á stjórn skipuð af ráðherra og í henni sitja sjö fulltrúar og áheyrnarfulltrúi útivistarsamtaka. Stjórnin getur ráðið sér framkvæmdastjóra eða gert samninga við aðra opinbera stofnun sem annast rekstur og daglega umsýslu. Þessi umsýsla eða daglegur rekstur hefur verið með einn starfsmann sem er algjörlega óviðunandi. Ef þetta á að vera gert sómasamlega er með þetta eins og margt annað að það vantar inn í það fjármagn. Af því að ég nefndi gjaldtöku held ég að það sé eitthvað sem við þurfum að huga að þegar kemur að þessum innviðum eins og svo mörgum öðrum.

Fjallað er um hvert hlutverk stjórnarinnar og svæðisráðanna er og talað um að Vatnajökulsþjóðgarður skiptist í fjögur rekstrarsvæði og sjálfstæðar einingar. Í svæðisráði sitja sex fulltrúar og það á að tryggja aðkomu heimamanna og umsýslu þeirra sem lifa og búa á staðnum, það þurfa þó ekki endilega að vera heimamenn sem sitja í svæðisráðinu en þeir sem búa þarna vita um hvað málið snýst dags daglega. Síðan er það þjóðgarðsvörður sem er ráðinn af stjórninni, eins og ég sagði, sem gerir svo tillögu til svæðisráða um ráðstöfun fjár.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur var málið ekki nægjanlega vel unnið þegar það kom til nefndarinnar, enda kom það fram hjá þeim sem komu að málinu, þ.e. hagsmunaaðilarnir, þjóðgarðsverðir og sveitarfélög o.fl., að þeim þótti með frumvarpinu eins og það kom fram að verið væri að draga úr valddreifðu stjórnfyrirkomulagi og auka miðstýringu. Nefndin breytti þessu til að svo yrði síður. Ég held að það hafi gengið þokkalega eftir.

II. kafli laganna er um stjórn þjóðgarðsins og fjallar m.a. um áheyrnarfulltrúa. Ég veit svo sem ekki hvers vegna það er svona erfitt að útivistarsamtakaáheyrnarfulltrúinn fái ekki að hafa tillögurétt. Ef ég skil þetta rétt kemur fram að hann hefur áheyrnaraðild að fundum stjórnar og nefndin telur sig hafa fengið þær upplýsingar að þetta hafi gengið ágætlega, en það voru uppi mismunandi sjónarmið nýverið og þá óskuðu útivistarsamtökin eftir því að fá fulla aðild að stjórninni. Það má svo sem vel vera að það sé ekki heppilegt, en nefndin taldi það vera þannig að áheyrnaraðildin samkvæmt lögum sé málfrelsi og tillöguréttur. Auðvitað er það svo þegar kemur að umdeildum málum að það kemur alltaf eitthvað upp þegar þau varða eins víðtækt og viðkvæmt svæði og Vatnajökulsþjóðgarð og ekkert óeðlilegt við það, þannig að ég trúi því að fólk sem situr í þessari stjórn hunsi ekki tillögur eða samtöl við þá sem eiga eingöngu áheyrnarrétt.

Lagðar eru til nokkrar breytingar sem snúa að stjórnunar- og verndaráætlun, umgengni og starfsemi í þjóðgarðinum og valdheimildum þjóðgarðsvarða, fyrst og fremst til þess að einfalda og skýra. Ég verð að taka undir að það er mjög skynsamlegt að hér undir séu ákvæði um umgengni, för og háttsemi fólks í þjóðgarði. Þetta er stærsta friðlýsta svæði, ekki bara landsins heldur í Evrópu og mikilvægt að vel sé um það gengið. Hér er talað um að það sé í gangi vinna í samræmi við ákvæði til bráðabirgða um náttúruvernd þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra á að láta vinna frumvarp um ný ákvæði sem snúa að stýringu á ferðaþjónustu. Undirliggjandi er þá almannarétturinn á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar og varðar ferðaþjónustuna og áganginn sem hún hefur óneitanlega í för með sér.

Það er líka áhugavert að lesa að það er ný grein sem bætist við, 15. gr. frumvarpsins, eða nýr kafli þar sem fjalla er um atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum og að heimilt sé að rukka fyrir leyfisveitingar vegna skipulagðra viðburða og verkefna. Ég tek undir það því að það snýr fyrst og fremst að því að hægt sé að vinna að verndarmarkmiðum laganna, eins og kemur fram, þar sem ágengnin hefur aukist í það að fá t.d. að taka upp kvikmyndir og annað slíkt. Þá þarf jafnvel að loka garðinum eða það getur falið í sér aukna vinnu fyrir þá sem þegar starfa í þjóðgarðinum. Mér þykir það hið besta mál.

Fyrst og síðast þarf að auka fjármagn í þennan þjóðgarð og þjóðgarðana okkar almennt og fjölga starfsmönnum, bæði úti á vettvangi á þessum fjórum starfssvæðum og líka á skrifstofu, þ.e. stjórnsýslueiningunni. Til þess að ná utan um hina gríðarlegu auknu ásókn verður að finna leið út úr því. Nefndar hafa verið nokkrar leiðir. Sé verið að gera heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna leyfisveitinga og samninga sem eiga þá bara að standa undir þeim kostnaði þá vantar aukið fé þannig að garðurinn geti starfað sómasamlega.

Við höfum rætt málin í tengslum við innviðauppbyggingu, í tengslum við samgönguáætlun og annað slíkt. Ég hefði viljað sjá í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar m.a. Dettifossveg kláraðan. Það er ekki bara að það sé betra aðgengi heldur er það gríðarlegt öryggisatriði. Í rauninni er algjörlega óásættanlegt þar sem þetta er búið að vera til einhverra ára á áætlun að verkið skuli ekki vera klárað og sá bútasaumur sem viðhafður hefur verið er ekki til fyrirmyndar, það er óhætt að segja það. Við þurfum að minnka álagið og dreifa því.

Við höfum talað fyrir millilandaflugi á Egilsstaði og Akureyri og jafnvel Húsavík. Allt er þetta eitthvað sem gæti breytt því álagi sem er á þeim perlum sem eru á Suðurlandinu og við nefndum áðan, m.a. Jökulsárlón og Gullfoss og Geysi. Ég tek undir það sem var sagt áðan að ég hefði viljað sjá ríkið gera verðmætamat á þessu af því nú erum við með Jökulsárlón í hálfgerðu uppnámi. Við þekkjum ástandið eins og það er búið er að vera við Geysi þar sem hluti er í ríkiseign og hluti í einkaeign. Við Mývatn og á fleiri stöðum er ástandið þannig að það er ekki hægt að koma að uppbyggingu vegna þess að ekki næst samkomulag við jarðeigendur. Ég held að við þurfum að fara í að reyna að meta það hvort uppkaup séu eitthvað sem við eigum að stefna að. Eins og kom fram í því sem fór á milli mín og hv. þm. Helga Hjörvars áðan er það auðvitað óskiljanlegt í íslenskum lögum að hægt skuli vera að eiga hér fjöll og firnindi og maður geti jafnvel ekki farið í ber af því að einhver slær á puttana á manni. Þetta er ekki skynsamlegt í nokkurn stað. Þá er ég líka að tala um þar sem ekki er verið að yrkja jörðina.

Það er svo allt annað mál að fyrirtækjum sé sköpuð einhver aðstaða innan svæða. Hún er þá undir reglum og lögum sem Alþingi setur og yrði þá væntanlega undir einhverri slíkri þjóðgarðsstofnun.

Einnig var talað um gjaldtöku. Í frumvarpinu er einvörðungu nefnd gjaldtaka varðandi tiltekna hluti. Það hefur ekkert komið frá ríkisstjórninni enn þá um það hvernig þessu sé best fyrir komið og ráðherra rekinn til baka með frumvarpið sitt um gjaldtöku. Einhvern veginn virðist ganga hægt að finna út úr þessu. Ég hef hins vegar hallast að því að við hefðum átt að hækka gistináttagjaldið, en það eitt og sér leysir ekki þennan vanda. Á höfuðborgarsvæðinu er eðli málsins samkvæmt langmesta gistingin og þá rynni langmest hingað, auðvitað er hér töluverður ágangur og allt það, en þá vantar áfram til svæða eins og Vatnajökulsþjóðgarðs og annarra svæða sem eru ekki með gistingu, einhvern veginn þurfum við að koma til móts við það. Sveitarfélögin sem hafa umsjón með þeim svæðum sem eru innan þeirra marka leggja oft út í ýmsan kostnað sem þau fá ekki bætt.

Ég hefði viljað fá inn komugjöld á háannatíma, að frá maí til loka september, eitthvað svoleiðis, mundum við setja komugjöld. Ég held að það sé ekki eitthvað sem fólk sem vill koma til landsins mundi setja fyrir sig. Það er enginn að tala um stórkostlegar fjárhæðir. En þetta mundi væntanlega skila sér og vera þá eyrnamerkt, hvort það heitir Stjórnstöð ferðamála eða guð má vita hvað, þá alla vega fer það þangað sem það ætti að fara og í innviðauppbyggingu.

Við stöndum enn þá frammi fyrir því að þrjú ár eru liðin og ekkert hefur gerst eða afskaplega lítið, það er best að segja ekki ekkert því að auðvitað hefur eitthvað gerst en afskaplega lítið. Við þekkjum stóru salernisumræðuna og af því við nefnum það þá er ég ekki heldur að tala um að það eigi að rukka út um allar koppagrundir og að það verði skúrar úti um allt. Það er ekki svo. Ég held að blanda af komugjöldum, hækkuðum gistináttagjöldum og lagfæringu á þeim gjaldstofni sé eitthvað sem þarf að gera og á auðvitað að vera löngu búið að gera það og hafa sveitarfélögin þar inni því að þau verða að fá viðbótargjaldstofna. Það er alveg ljóst að ríkið getur ekki tekið allt til sín af því að það er ekki bara þetta sem hefur bæst á sveitarfélögin, það er svo margt, margt annað.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa umræðu lengri. Við viljum öll komast um landið án þess að þurfa að vera að borga úti um allt. Þess vegna held ég að komugjöldin séu af hinu góða. Ég fór í þjóðgarð erlendis þar sem mér bauðst að fara í kláf upp restina af fjallinu. Það var ókeypis inn í þjóðgarðinn og þar voru verðir úti um allt þótt maður sæi þá ekki fyrr en einhver hafði gert eitthvað af sér eins og að leggja bílnum þar sem ekki átti að leggja honum, þá birtust verðir á svipstundu og sáu til þess að bílum yrði lagt þar sem heimilt var að leggja þeim. Að öðru leyti varð maður ekki var við þjóðgarðsverðina. Gjaldtakan var eingöngu til þess að standa undir rekstrinum á kláfnum og ekkert umfram það. Slíkt er alveg í lagi. Þetta eigum við að geta gert hér heima, við eigum ekki að þurfa að rukka eitthvað sérstaklega inn. Við eigum að hafa frjálsa för um landið og við höfum alltaf talað fyrir því, vinstri græn. En við þurfum að ná í fjármuni og við getum gert það með komugjöldum og gistináttaskatti. Þetta er nákvæmlega það sama og við borgum þegar við förum til útlanda.

Þetta frumvarp er hænuskref í ákveðna átt og rétta átt og fjallar um mjög afmarkað þætti. En það er alveg ljóst að enn þá vantar eitthvert skynsamlegt utanumhald um málefni þjóðgarða á Íslandi.