145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann talar um einstæða foreldra og siðferðislegar spurningar. Hér er um ólöglegt athæfi að ræða, við erum sammála um það. Staðgöngumæðrun í dag er ólöglegt athæfi. Eins og hv. þingmaður nefndi áðan þegar hann talaði um einhvern sem væri í ólöglegri vímuefnaneyslu eða eitthvað slíkt, þá mundum við samt aðstoða hann ef hann kæmi til okkar og óskaði þess.

Mikið er talað um jafnræði barna. Ég er auðvitað talsmaður barna, einn af þeim hér á þingi. Þess vegna fann ég mig knúna til þess að láta vita af þeim spurningum sem ég spurði varðandi hluta þessa máls.

Þegar einhver ákveður að fara til útlanda og kaupa sér staðgöngumóður, því að það er það sem fólk gerir ef það fer til útlanda til að kaupa sér barn, þá veit hann um leið að það er ólöglegt. Fólk veit hvað það er að fara að bjóða barninu sínu upp á, hvort sem um er að ræða einstæðan karl eða einstæða konu, það getur líka alveg verið að um sé að ræða einstæða konu. Það eru til sæðisbankar og hægt að kaupa sér þjónustu staðgöngumóður einhvers staðar úti í heimi. Þegar við tölum um réttindi barna getum við ekki á sama tíma sagt að foreldrum sé heimilt að brjóta lög og nýta sér börnin til að fá einhver tiltekin réttindi. Ég lít eiginlega á það þannig. Eins og þingmaðurinn segir um staðgöngumæðrunina eru þetta stórar siðferðislegar spurningar.

Ég sat í nefnd þegar þetta mál var til umræðu. Siðfræðistofnun háskólans kom og fóru mjög áhugaverðar umræður fram, en það mál er ekki komið inn á borð til okkar. Mér finnst við vera að segja í þessu að þetta sé í lagi. Þess vegna spurði ég, og sé að framsögumaður nefndarálits ætlar að fara í andsvar við mig, hvort við gætum brugðist við þeim aðstæðum sem hér eru. Það getur einhver sagt að þá sé verið að mismuna þeim sem eftir eiga að koma, það (Forseti hringir.) má vel vera. En ég held alla vega að þetta sé eitthvað sem fólk veit áður en það fer af stað.