145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir afar góða og vel undirbúna ræðu. Maður fær nú bara netta minnimáttarkennd þegar maður heyrir svona fínar ræður með öllum þessum tölum. Ég hef ekki þær tölur sem hv. þingmaður óskar eftir, kannski vegna þess að ég tók ekki nógu vel eftir á velferðarnefndarfundi, ég skal ekki segja, en ég get mér þess til að þessi hópur sé smár þar sem staðgöngumæðrun er lögbrot og það eru sem betur fer ekki margir sem kjósa að brjóta lögin.

En ég vil undirstrika það hér enn og aftur að að mínu mati, og þess vegna skrifa ég undir nefndarálit meiri hlutans, verðum við fyrst og fremst að horfa á rétt barnsins í þessu tilfelli. Það er eins og hv. þingmaður kom að í síðasta andsvari, að það er foreldrarnir sem taka meðvitað ákvörðun um að brjóta lög. Barnið verður til, það kemur í heiminn. Ég tel að með þessu máli séum við ekki að hvetja til lögbrota, síður en svo, heldur að bregðast við aðstæðum sem upp eru komnar vegna þess að við erum með lög — við reynum að hafa félagslegt taumhald á því fólki sem hér býr, en við getum aldrei komið fullkomlega í veg fyrir að fólk brjóti lögin, því miður.

Og nota bene, þetta mál snýst ekki í raun um staðgöngumæðrun. Það snýst ekki um þ að lögfesta staðgöngumæðrun. Eins og ég kom að bæði í nefndarálitinu og í andsvörum hér áðan eru mjög skiptar skoðanir um staðgöngumæðrun og ég skynja frekar neikvætt viðhorf gagnvart staðgöngu. Málið snýst með engu móti um lögfestingu á staðgöngumæðrun. Hér er aðeins verið að bæta lögin á þann hátt að hægt sé að tryggja jafnræði allra barna og bregðast þar við orðnum hlut sem blessuð börnin bera enga ábyrgð á.