145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir því sem líður á störf þingsins á þessu kjörtímabili verður það augljósara, að ekki að segja pínlega augljóst, hve lítill skoðanamunur er á milli stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, þótt þeir skiptist í fjóra flokka. Í hverju málinu á fætur öðru nær allt þetta kjörtímabil, í nefndaráliti eftir nefndarálit, í afstöðu eftir afstöðu hefur vart gengið hnífurinn þar á milli. Þó að auðvitað sé áherslumunur í einu og einu atriði, um landbúnaðarmál eða höfundarétt, þá er hann hvergi meiri en einfaldlega gerist innan fjölmargra stjórnmálaflokka.

Þegar nú færist nær kosningum bætist það við að ekki verður betur séð en að þessir fjórir stjórnmálaflokkar hafi í öllum meginatriðum uppi sömu stefnuáherslur um næsta kjörtímabil. Þess vegna vil ég segja að það skiptir öllu máli að í kosningunum næstu verði breytingar á störfum þingsins næstu árin, það taki við nýr meiri hluti sem vinni að félagslegum úrbótum og að hagsmunum almennings. En til þess að minni hluti verði að meiri hluta þarf minni hlutinn að vera trúverðugur. Og til að þau öfl sem hafa staðið hér að stjórnarandstöðu þetta kjörtímabil séu það tel ég nauðsynlegt að menn sameinist í þessum ólíku flokkum um sameiginlega verkefnaskrá á Alþingi fyrir næstu fjögur ár, þannig að stuðningsmenn allra þessara flokka og allir þeir á Íslandi sem vilja breytingar eigi skýran valkost. Ella er hætt við að hér haldi áfram sama ríkisstjórnin að viðbættu hjólinu Viðreisn.