145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að nú loksins sé verið að fullgilda Parísarsamkomulagið. Það eru níu mánuðir síðan það var undirritað í París, 12. desember 2015. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum þessa þingsályktunartillögu að hún varðar eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna á heimsvísu.

Loftslagsváin ógnar lífríki jarðar og okkur mannfólkinu sem hér búum. Hitamet eru slegin mánuð eftir mánuð. Áhrifa loftslagsbreytinga er farið að gæta með flóðum og fellibyljum og skógareldum. Þetta leiðir af sér mikið tjón. Fólk hrekst á flótta frá heimilum sínum sem veldur líka átakapunktum. Ef við sýnum ekki fullan metnað í þessu máli og sýnum strax að okkur sé alvara erum við í raun runnin út á tíma. Markmiðið er að hækkun hitastigs jarðar verði undir 2°, að jörðin hitni ekki um meira en 2° miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. En jafnframt er lagt til að allra leiða verði leitað til að halda hækkun hitastigsins undir 1,5° miðað við hitastig jarðar fyrir iðnvæðingu.

Í Parísarsamningnum er ríkari þjóðum sem hingað til hafa borið meiri ábyrgð á losun gert að vera í broddi fylkingar og er það eðlilegt, að við, hinn ríkari, velmegandi heimshluti, leggjum meira af mörkum til þessara mála. Ísland hefur tekið þá ákvörðun að vera í samstarfi við aðildarríki Evrópusambandsins um að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við útblástur árið 1990. Þetta ætlum við að gera með því að halda áfram þátttöku í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og ákvarða losunarmarkmið utan viðskiptakerfisins með því að beita sömu aðferðafræði og ríki ESB. En það kemur líka fram að við eigum eftir að semja við Evrópusambandið og Noreg um þetta fyrirkomulag og að það verði gert með öðrum hætti náist það ekki. Jafnframt kemur fram að formlegar samningaviðræður séu að hefjast á næstunni. Áætlað er að þeim ljúki á árinu 2017. Það kemur ekki fram hvenær á árinu 2017 en tekið er fram að af því að þetta er rammasamningur þar sem landsframlög eru síðan ákveðin innan þess ramma þurfi ekki að vera búið að útfæra landsákvörðuð framlög Íslands áður en Parísarsamningurinn er fullgiltur. Svo segir, með leyfi forseta, hér í greinargerð:

„Mikil vinna er fram undan við að setja fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum á næstu árum og áratugum og vinna að aðgerðum til að ná þeim.“

Frú forseti. Þetta eru svo sannarlega orð að sönnu. Ef við lítum á helstu losunarvalda eru það samgöngur, skipaflotinn, útblástur frá stóriðju og það er landbúnaður. Núna var verið að semja um búvörusamninga til tíu ára og þar er ekki tekið myndarlega á losunarmálunum. Það hræðir mig. Það sýnir að við höfum ekki raunverulegan metnað til þess að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins. Í þeim samningum sem á að fara að lögfesta á Alþingi er tækifærið til þess að sýna hvort við meinum eitthvað með aðild okkar að samkomulaginu eða ekki.

Við þurfum líka að horfa til þess að eftir hrun skánaði staða okkar í losunarmálum því að fólk hætti að hafa efni á að vera með jafn mikið af bílum og fyrir hrun. Það hafði sjálfkrafa áhrif á losun. Nú vita allir sem keyra frá vestri til austurs í Reykjavíkurborg í eftirmiðdaginn eða austri til vesturs að morgni að það er gríðarlegur umferðarþungi. Umferð eykst. Bílasala eykst. Þetta færir okkur heim sanninn um að efnahagslífið er borubratt. Það gengur vel. En það hefur líka áhrif og veldur aukinni losun. Við þurfum að leggja fram miklu metnaðarfyllri áætlanir um uppbyggingu almenningssamgangna. Á síðasta kjörtímabili gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samkomulag við ríkið um að fá milljarð til uppbyggingar á almenningssamgöngum næstu tíu árin. Blessunarlega hefur núverandi ríkisstjórn staðið við það samkomulag, sem er gríðarlega mikilvægt. En þróunin sem á sér stað núna með aukningu umferðar sýnir okkur að við verðum að gera betur. Við verðum að endurskoða þessar áætlanir og leggja meira til almenningssamgangna, fyrir utan hvað það eykur lífsgæði fólks að þurfa ekki að sitja í bílunum sínum allt upp í þrjú korter til að komast vegalengd sem er rétt rúmir tíu kílómetrar.

Svo er það auðvitað þannig að okkur finnst þægilegt að keyra bílinn okkar og það er mikið frelsi, en það er líka mikill sparnaður fyrir fólk ef það hefur aðgengi að skilvirkum og góðum almenningssamgöngum. Þetta er mjög mikilvægt verkefni.

Þá er það skipaflotinn. Þar þarf að halda áfram á sömu braut og draga úr losun. Svo tel ég að við ættum að fara að setja okkur þau markmið að hætta hér uppbyggingu á stóriðju. Við þurfum að fara að byggja upp annars konar atvinnustarfsemi sem gengur ekki með freklegum hætti á auðlindir jarðar heldur nýtir sér auðlindina góðu, mannauðinn. Það að fjárfesta í skemmtilegum og verðmætaskapandi atvinnugreinum og efla menntakerfið eru aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvitað með óbeinum hætti en þetta er fjárfesting sem við verðum að fara í til að geta byggt hér upp atvinnugreinar sem grundvallast á hugviti en ekki ágengri notkun náttúruauðlinda.

Á Íslandi tölum við um endurnýjanlega orku, sem reyndar gengur á aðra auðlind sem er náttúran okkar, en við flytjum líka inn hrávöru sem raskar lífríki annars staðar, eins og báxít til álframleiðslu.

Það er ánægjuefni að við séum að fullgilda þennan Parísarsamning en við þurfum sannarlega að spýta í lófana og öll að sammælast um að við ætlum að ná þessum markmiðum og byrja strax. Við ætlum að sýna í verkum okkar hér að við komum með tillögur og aðgerðir til að hefja samdrátt á losun strax til að við náum þessum markmiðum. Auðvitað þurfum við að binda gróðurhúsalofttegundir með ræktun en það á að vera viðbót við það að draga úr losun, því að það er lykilatriði, að draga úr losuninni.