145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Fólki til hagsbóta heitir það svo einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Það hefur talsvert verið talað um það og boðað að fyrir liggi frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar og ég hef orðið vör við það að lífeyrisþegar, bæði ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, hafa verið nokkuð spenntir að sjá hvað muni leynast í þessum frumvörpum og hafa vonast eftir því að þar verði gerðar breytingar sem leiða til bættra kjara þeirra. Ég er hrædd um að margir verði fyrir vonbrigðum þegar þeir sjá þetta frumvarp en ég ætla þó alls ekki að fara að halda því fram að allt sé slæmt sem í því er, síður en svo. Ég held að hér sé ýmislegt til bóta, vissulega.

Það liggur hins vegar fyrir og kemur fram í umsögn með frumvarpinu að kostnaðarauki ríkisins af nýju kerfi og því sem boðað er með þessu frumvarpi sé áætlaður á bilinu 5–5,5 milljarðar á árinu 2017, sem eru alveg þó nokkrir peningar, og að kostnaðaraukinn verði tæpir 23 milljarðar á næstu árum. (Gripið fram í: 33.) Fyrirgefðu? (Gripið fram í: 33 milljarðar.) 33 milljarðar á næstu tíu árum, afsakið. En það kemur hins vegar einnig fram í töflunum á bls. 31 að þeir sem eru einvörðungu með greiðslur úr almannatryggingakerfinu muni ekki hækka í greiðslum með þessu frumvarpi. Ég held að margir eigi eftir að verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum með það vegna þess að þeir sem eru á strípuðum greiðslum fá ekki háar greiðslur. Þetta eru núna 212.776 kr. til þeirra sem ekki búa einir og 246.902 kr. til þeirra sem búa einir. Þetta eru alveg svakalega lágar fjárhæðir. Ég hugsa að flestir séu sammála um að þær duga ekki til framfærslu. Sá hópur ellilífeyrisþega sem er á þessum strípuðu tekjum og hefur ekki aðrar tekjur, ekki lífeyrissjóðstekjur eða annars konar tekjur, býr við mjög sára fátækt. Sem betur fer er fullt af ellilífeyrisþegum sem býr við mun betri kjör. Það er auðvitað fagnaðarefni, en ég tel að við verðum alltaf að hafa þennan allra tekjulægsta hóp sérstaklega í huga og hefði gjarnan viljað sjá að hann fengi kjarabætur núna strax. Það er raunar það sem við í stjórnarandstöðunni á Alþingi höfum talað um á þessu kjörtímabili og lögðum þess vegna m.a. til breytingar við fjárlög.

Ég tel það hins vegar mjög jákvætt í þessu frumvarpi að þar sé lagt til að sérstök uppbót á framfærslu verði felld inn í sameinaðan bótaflokk sem þá mun heita ellilífeyrir eftir það. Það held ég að verði góð kjarabót þeim sem vilja eða geta bætt stöðu sína til að mynda með einhverri atvinnuþátttöku. Jafnvel þótt það komi aðrar skerðingar á móti held ég að þetta sé mjög mikilvægt skref og fagna því alveg sérstaklega. En ég held jafnframt að það verði öryrkjum mjög mikil vonbrigði að þetta muni ekki gilda líka fyrir þá og að mínu mati er þar strax komið atriði sem ég tel að hv. velferðarnefnd eigi að taka til mjög rækilegrar skoðunar og vita hvort það ætti ekki að láta þetta ákvæði gilda líka um öryrkjana, því að þetta ákvæði var auðvitað sett inn til þess að standa vörð um kjör þeirra sem eru á allra lægstu greiðslunum úr almannatryggingakerfinu og var sett á í kreppunni til að toga tekjur þeirra upp. Raunin er hins vegar að vegna þess að það skerðist króna á móti krónu hefur það fest fólk í fátæktargildru. Ég held að þetta sé eitthvað sem við hér inni erum öll sammála um að við viljum breyta. Ég beini því til hv. velferðarnefndar að skoða það að láta þetta einnig ná til öryrkjanna.

Hæstv. ráðherra hafði því miður ekki tíma í andsvari við mig áðan til að fara almennilega yfir hvað það er sem hún sér fyrir sér varðandi þátt öryrkja nú á næstunni. Líkt og fram kom í máli hennar eru fundir áætlaðir og ég veit að hæstv. ráðherra vill gera breytingar sem ná til öryrkjanna, en það er erfiðara eða flóknara, það skal viðurkennt, því að þar eru mjög skiptar skoðanir, það kom berlega í ljós í vinnu þeirrar nefndar sem var að störfum og hafði á sinni könnu endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Það er ansi mikill munur á því sem Öryrkjabandalagið sér fyrir sér í þeim efnum og svo aðrir sem einnig áttu sæti í nefndinni, svo sem Samtök atvinnulífsins, svo ég nefni eitthvert dæmi. Ég átta mig alveg á því að það er flóknara mál en held að það væri mjög mikilvægt fyrsta skref, sér í lagi ef það næst ekki að gera neitt til að bæta kjör öryrkja á þessu þingi. Ef ekki næst að koma með neinar tillögur um það inn hér fyrir þinglok, og tíminn er naumur, held ég að þótt ekki væri annað en það að fella sérstöku framfærsluuppbótina inn í einhver bótaflokk sem öryrkjar fá einnig yrði það til mjög mikilla bóta.

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er einnig lögð til hækkun á lífeyrisaldri. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það hvernig tryggingafræðilegir útreikningar hafa sýnt fram á að það muni þurfa að hækka lífeyrisaldurinn til að kerfið standi undir sér. Ég er viss um að mörgum hugnast það ekkert sérstaklega vel, en það er svolítið erfitt að rífast við tölurnar í þeim efnum.

Mér sjálfri finnst áherslan á sveigjanleg starfslok mjög mikilvæg. Ég held að hjá mörgum eldri borgunum sé mjög mikill vilji til þess að vera áfram virk á vinnumarkaði þrátt fyrir að vera komin á aldur. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, og við stóðum þess vegna m.a. að bókun í starfi nefndarinnar um endurskoðun á almannatryggingakerfinu, að líta til þess að það er erfiðara fyrir eldra fólk sem missir vinnu að fá ný störf en þá sem yngri eru. Þá er ég ekkert endilega að tala um fólk sem er komið á lífeyristökualdur og ekki einu sinni lífeyristökualdur í núverandi kerfi. Þetta er atriði sem er mjög erfitt að eiga við ef ekki kemur til viðhorfsbreyting meðal atvinnurekenda og í samfélaginu öllu, vegna þess að annars er hætt við því að hækkun á lífeyrisaldri leiði einfaldlega til aukins atvinnuleysis meðal eldra fólks. Það er ekki gott fyrir neinn.

Þá er jafnframt viðbúið að hækkun lífeyrisaldurs leiði til fjölgunar öryrkja í elstu aldurshópunum, til að mynda hjá þeim sem eru 67–69 ára. Ég held að það þurfi þess vegna að huga sérstaklega að lausnum á því, svo að sú hugsun gangi upp.

Þá finnst mér líka vert að gefa því sem segir í umsögn Félags eldri borgara í Reykjavík með drögum að þessu frumvarpi gaum. Þar benda þau á að þau telji að 45% skerðingarhlutfall á tekjur og ekkert frítekjumark vera of hátt skerðingarhlutfall og á einhverjum stað bentu þau á að þau mundu gjarnan vilja að þetta frítekjumark yrði áfram eins og það er núna, 38,5%. Þetta er eitthvað sem mér finnst að hv. velferðarnefnd eigi einnig að skoða mjög vel.

Svona að lokum, vegna þess að tíminn er að hlaupa frá mér, langar mig að minnast á bráðabirgðaákvæðið sem er fjallað er um í 18. gr. þess efnis að ráðherra skipi starfshóp til að útfæra og koma á fót tilraunaverkefni við hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sem á að ganga út á það að íbúar á hjúkrunarheimilum haldi lífeyrisgreiðslum sínum en greiði milliliðalaust fyrir framfærslu.

Mér finnst þetta alveg hárrétt hugsun. Ég er ekki mótfallin því og held að mjög gott sé að fara í tilraunaverkefni um þetta. En vegna þess að hugsað er að fólk eigi þá einnig að greiða fyrir mat, þrif, þvott og tómstundastarf ásamt húsaleigunni verður að skoða sérstaklega kjör þeirra sem eru á lægstu lífeyrisgreiðslunum. Annars er ég hrædd um að við gætum búið til nýja og enn meiri fátæktargildru (Forseti hringir.) fyrir fólk sem er nú þegar í mjög þröngri stöðu. Það getur alls ekki verið tilgangurinn með þessu að setja fólk sem býr (Forseti hringir.) nú þegar við fátækt í enn verri stöðu.