145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[10:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðisins og sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar eru besta vopn okkar í baráttunni við spillingu. Þess vegna er verulegt áhyggjuefni að rekstrarumhverfi þeirra hefur farið hríðversnandi, niðurskurður og hallarekstur er staðreyndin, bæði á litlum netmiðlum, einkareknum ljósvakamiðlum og á RÚV á undanförnum missirum. Þess vegna spyr ég menntamálaráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar á skattumhverfi og stuðningsumhverfi við fjölmiðla til að við snúum vörn í sókn.

Það er verulegt áhyggjuefni hvernig tækniþróun og alþjóðleg samkeppni hefur verið að breyta rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla. Auglýsingamarkaðurinn er að minnka í harðri samkeppni við stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Google og Facebook sem ekki borga skatta hér en hins vegar eru þungar skattálögur á miðlana sem eru að reyna að halda úti frétta- og menningarumfjöllun á tungumáli sem aðeins 0,3 milljónir manna tala. Það er líka sífellt minnkandi vilji neytenda til þess að borga fyrir innihald um leið og við þurfum í raun og veru á því að halda meira en nokkru sinni fyrr, sem er gagnrýnin, öflug fjölmiðlun til að veita það aðhald sem þarf að veita með spillingu í sífellt flóknara samfélagi og þar sem við glímum við verkefni eins og ofvaxið fjármálakerfi, Tortóluhneyksli og aðra slíka hluti.

Einkareknir fjölmiðlar hafa kallað eftir því að RÚV dragi sig út af auglýsingamarkaði. Ég segi: Eina lausnin sem samstaða getur tekist um er að skapa öllum fjölmiðlum, Ríkisútvarpinu, einkareknum ljósvakamiðlum, líka litlu netmiðlunum og öðrum fjölmiðlafyrirtækjum, grónum gömlum dagblöðum, betri rekstrarskilyrði þannig að allir fjölmiðlar búi við betri skilyrði eftir en áður.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra hvort hann hafi látið þessa knýjandi erfiðu stöðu íslenskra fjölmiðla til sín taka og hvort við munum sjá bætt rekstrarskilyrði og aukinn stuðning við þá.