145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

Parísarsamningurinn.

[10:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek mjög vel í brýningar í þessu máli og mér finnst eðlilegt að þjóðir heimsins, ekki bara Ísland, komi að málum. Þetta er sameiginlegt vandamál heimsins og er mikilvægt að unnið sé gegn því þverpólitískt, bæði innan lands og á heimsvísu. Það var akkúrat það sem gerðist í París. Þá komu þjóðir saman og ákváðu að nú yrði að gera eitthvað en áður höfðum við verið að rífast um hvað ætti að gera. En það gerðist eitthvað þar á síðustu stundu.

Við erum náttúrlega að vinna mjög margt og viljum líka skapa hér ákveðið hringrásarkerfi, nýsköpun í því að hvetja til góðra verka. Við lásum blöðin í morgun og hvað stóð í blöðunum? Þar stóð að við þyrftum að fara að tryggja landrafmagn fyrir skip, það gæti mjög dregið úr losun, 4% hvað það varðar. Það er stórt verk og kostar fjármagn og kostar sennilega líka virkjanir. Það kostar kannski að við þurfum að fara að virkja eitthvað fyrir norðan, ef við förum mikið í það, til þess að flutningaleiðirnar verði ekki of langar.