145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna þar sem atvinnuveganefnd stóð að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Hún snýr að því að komið sé til móts við minni útgerðir varðandi makrílinn og síldina, þó sérstaklega makrílinn. Við vitum að hann er furðuleg skepna og kemur í inn lögsögu okkar til að éta og lítur á þetta sem fæðubúr sitt og fer svo aftur. Við höfum hann ekki inni í landhelginni nema kannski í mánuð í viðbót. Það er mikilvægt að við nýtum okkur það og veiðum makrílinn meðan hann er í okkar lögsögu. Ég tala nú ekki um að minni útgerðir hafi möguleika á að veiða hann á eðlilegu verði miðað við hvert afurðaverðið er. Fram kom í ræðu framsögumanns að afurðaverð á makríl hefur verið á milli 50 og 60 kr., eins og ég skil það. Mér finnst eðlilegt að horft sé til þess og að það gjald sem ríkið hefur tekið fyrir aðgang að pottinum, sem er í þessum félagslegum hluta 3,5%, taki eitthvert mið af afurðaverði og færist niður til samræmis við það veiðigjald sem fyrir er, sem þessar útgerðir þurfa að borga þar fyrir utan, 2,78 kr. Eins og komið hefur verið inn á er mikill munur á því hvaða veiðigjald uppsjávarfyrirtækin borga fyrir aðgang að makrílnum, og minni útgerðir sem þurfa fyrst að leigja úr þessum potti á 8 kr. og síðan að greiða veiðigjald.

Ég tel að það sé réttlætanlegt og skynsamlegt að leggja þetta mál fram og nýta þær auðlindir sem við höfum í landhelginni, þ.e. makrílinn, og gera það þess vegna með þessum hætti hratt og vel.

Hitt er svo annað mál að makríllinn hefur yfir höfuð ekki verið í mörg ár í landhelgi okkar. Ég tel að það hefði mátt ráðstafa honum heilt yfir með allt öðrum hætti. Þessi ríkisstjórn tók þá ákvörðun að hlutdeildarsetja makrílinn, kvótasetja hann. Hann er í dag kominn á allt of fáar hendur. Í uppsjávargeiranum hafa veiðiheimildir verið að færast yfir á stærstu útgerðirnar, eins og við reiknuðum með. Það er líka hjá minni útgerðum, margir höfðu ekki góða viðmiðun aftur í tímann til þriggja ára og fengu því lítið og töldu því ekki borga sig að gera út miðað við þann mikla tilkostnað sem þeir höfðu lagt í við að breyta bátum sínum til að stunda makrílveiðar.

Svo ég er mjög gagnrýnin á þá ákvörðun að kvótasetja makrílinn og að hann sé framseljanlegur. Það kerfi allt er mér ekki að skapi og tel ég rétt að við fyrsta tækifæri, þegar ný ríkisstjórn kemst til valda og hefur einhvern metnað í að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, að skoða hvernig hægt er að gera þetta þannig að fleirum sé gefið tækifæri til að hafa tekjur og aðgang að þeirri auðlind sem þarna er undir. Það eru auðvitað gífurlegir hagsmunir þarna á ferðinni.

Nefna má að færeyskir ráðherrar, Høgni Hoydal og fleiri, eru hér á landi þessa dagana að ræða uppboðsleiðina í Færeyjum þar sem tekið er ákveðið magn af makríl og fleiri tegundum og boðið upp. Ég tel að við eigum að kynna okkur það og taka það til skoðunar þótt ég sé ekki á því að sá þorskur sem við veiðum á Íslandsmiðum eigi allur að fara á uppboð. Það er allt annað mál og þarf miklu meiri tíma til að ræða og rökræða hvaða afleiðingar það hefði. En varðandi makrílinn sem er nýr í lögsögunni hefðum við auðvitað að átt að hafa þor til að skoða leiðir eins og þá að bjóða hann út með einhverjum hætti eftir flokkun útgerða og gera hinum minni útgerðum miklu hærra undir höfði en raun varð á. Það fóru margir frá borði með sárt ennið eftir að það var gert. Menn höfðu lagt í gífurlegan kostnað við að útbúa báta sína á makrílveiðar en síðan kom í ljós að ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri.

Ég tel að þau 2.000 tonn sem þarna eru undir af síld og makríl séu sárabót og skipti máli. Þess vegna tel ég rétt að vera á málinu og stuðla að því að það séu möguleikar fyrir minni útgerðir að nýta sér veiðar á makríl meðan hann er enn í landhelgi okkar.