145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki talsmaður uppboðs í sjálfu sér heldur tel rétt að það sé skoðað í ákveðnum tilfellum. Makríllinn gæti fallið undir það. Ég vil frekar að ríkið hafi öflugan leigupott sem hann leigir en að menn leigi hver af öðrum. Hv. þingmaður talar um að þeir sem hafi aflað veiðireynslu og sótt t.d. makríl og aðrar nýjar tegundir eigi að vera í forgangi. Ég tel að það sé mjög gott að þeir útgerðaraðilar hafi gert það, öðruvísi værum við ekki að gera út á Íslandsmiðum, ekki nema af því menn sjá hag sinn í því að gera út. Það er ekki eins og menn geri út bara til þess að afla íslenska ríkinu þeirra réttinda varðandi deilistofna. Menn hafa gífurlegar tekjur af því líka. Þá skulum við horfa til þess að eigendur útgerða eru ekki einir á ferðinni. Þarna eru sjómenn og landverkafólk. Hvaða rétt hefur það til þessarar auðlindar? Ekki neinn. Á það ekki að hafa líka rétt til auðlindarinnar, alveg eins og sá sem á skipið eða útgerðina eða vinnsluna í landi? Er það ekki líka réttlætismál? Hvað segir stjórnarskráin um það, rétt fólks sem skapar þessum mönnum auð? Ég held að menn ættu að fara að hugsa um fleiri en þá sem eiga þetta. Þeir aðilar sem eiga þessi stórfyrirtæki gerðu nú ansi lítið ef það væri ekki fólk til sjós og lands sem drægi aflann að landi og ynni úr honum. Ég held að menn ættu að hafa það í huga. Ég tel að það sé alveg hægt að stjórna fiskveiðum hér við land með allt öðrum hætti en gert er núna. Við horfum vítt og breitt í kringum strendur landsins og sjáum hvernig þetta kvótakerfi hefur farið með landsbyggðina. Það er hægt að útfæra fiskveiðistjórnarkerfið þannig að það sé ásættanlegra fyrir alla, en ekki aðeins fyrir suma.