145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað dæmigert fyrir íhaldssama sjálfstæðismenn að tala um þessa kapítalísku brauðmolakenningu, að það hrynji alltaf eitthvað af brauðmolum þeirra sem fá allt upp í hendurnar. En það er það sem skilur okkur að í skoðunum okkar, mínum sem vinstri manns og í Vinstri grænum og hv. þingmanns sem sjálfstæðismanns og íhaldsmanns og talsmanns markaðarins. En ef hv. þingmaður er talsmaður markaðarins mundi maður ætla að hann horfði til markaðslögmála varðandi uppboð.

Ég endurtek enn og aftur: Ég fell ekkert í trans yfir þessum uppboðshugmyndum. Mér finnst að þær geti átt við ef markmiðin eru skilgreind vel. En þau eiga langt í frá við alls staðar, því að þá er hætta á því að þeir stóru og sterku sópi öllu til sín og aðrir hafi ekki möguleika og tækifæri. Það getur orðið nógu mikil óvissa sem því fylgir fyrir byggðir landsins.

Ég tel varðandi þennan mikla rétt sem þeir eiga að hafa fram yfir alla aðra til framtíðar sem hafa í upphafi verið frumkvöðlar að hagsmunir þeirra hafi ekki verið fyrir borð bornir og verði aldrei. Þeir munu alltaf njóta þess að hafa verið frumkvöðlar. Það er enginn að tala um að þeir eigi ekki að njóta þess að einhverju leyti en þeir eiga ekki að vera einráðir á ferðinni. Við þekkjum líka hvernig kvótakerfið byggðist upp þegar skipstjórakvótinn færðist á milli og alls konar slíkar aðgerðir sem áttu ekkert heima við það hver veiðireynslan var, heldur var þetta alls konar tilfærsla sem færði aflaheimildir til þeirra fáu og sterku og á milli landshluta og skildi eftir blæðandi byggðir í kjölfarið. Ég tel mig þekkja þessi mál það vel að ég þekki gallana á kvótakerfinu. (Forseti hringir.) Það þarf enginn að segja mér (Forseti hringir.) að það sé hamingjan út í eitt.