145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

húsnæðismál.

849. mál
[15:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðurnar fyrir því að ég hef ekki komið fyrr inn með tillögur sem snúa að framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur stóra verkefnið hjá okkur í velferðarráðuneytinu verið að takast á við rekstrarvanda sjóðsins. Það hefur tekið á. Ég lagði mjög mikla áherslu á það við stjórn sjóðsins þegar hún tók við því verkefni að við mundum hætta að setja fjármuni úr ríkissjóði í sjóðinn. En við höfum lagt, held ég, um einn nýjan Landspítala í að styrkja eigið fé sjóðsins, eða um 50 milljarða á síðustu árum, ekki á þessu kjörtímabili, en eftir bankahrunið. Það hefur tekist að gera það. Sjóðurinn hefur skilað afgangi.

Hins vegar er alveg augljóst að við munum ekki geta leyst grundvallarvandann varðandi sjóðinn sem snýr að fjármögnun hans. Sjóðurinn getur ekki borgað upp þau bréf sem hann notaði til þess að fjármagna sig. Í frumvarpinu eru því ákvæði til þess að draga það sem snýr að sjóðnum úr uppgreiðsluáhættunni.

Síðan hefur líka orðið umtalsverð breyting á þessum tíma á húsnæðislánamarkaðnum. Þær breytingar sem snúa að Íbúðalánasjóði eru fyrst og fremst vegna þeirra lagabreytinga sem gerðar voru árið 2012 þar sem lánaheimildirnar voru takmarkaðar verulega. Það er óbreytt samkvæmt frumvarpinu og vegna þess að stór hluti af bankakerfinu er aftur komið í samfélagslega eigu, þ.e. í eigu ríkisins, þannig að við getum haft mjög mikið um það að segja hvernig við byggjum upp nýja fjármálakerfið. Ég og hv. þingmaður erum svo sannarlega sammála um mikilvægi þess að auka samfélagslega hugsun í bankakerfinu, en lífeyrissjóðirnir, sem við erum beinir eigendur að, hafa á síðustu mánuðum verið að taka til sín æ stærri hluta af húsnæðislánamarkaðnum. (Forseti hringir.) Það mun breyta hlutunum verulega.