145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

umhverfisbreytingar á norðurslóðum.

[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn og vil fyrst segja að það var auðvitað mikið ánægjuefni að við skyldum kynna þetta hagsmunamat sem skiptist einmitt í fjóra þætti. Í fyrsta lagi er fjallað um þróun á alþjóðavettvangi, í öðru lagi hlýnun loftslags, í þriðja lagi atvinnuþróun og auðlindanýtingu og í fjórða lagi samgöngur og samgönguinnviði.

Annað sem mér finnst gott í skýrslunni er að þar er verið að fjalla um þau tækifæri og þær áskoranir jafnframt. Ég tek undir með þingmanni að mér finnst sjálfsagt mál að ræða þetta hagsmunamat hér á þingi og ég held að öll umræða verði til góðs þannig að ég tek undir það.

Varðandi það að vera með afdráttarlausa yfirlýsingu um að við stöndum gegn því að nýta náttúruauðlindir á þessu svæði er ég ekki alveg viss um að við séum komin nógu langt með greiningu og annað slíkt til að vera algjörlega afdráttarlaus. Ég tek þó klárlega undir að viðkvæm náttúra þarf að njóta vafans á þessu svæði, en ég held að við þurfum að skoða þetta betur og annað í þessu, við erum að horfa mikið til Norðmanna um alla umgjörð er tengist þessum málaflokki. Þeir hafa verið til fyrirmyndar og ég legg ríka áherslu á að við leitum eftir samstarfi við þá.