145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

fjárveitingar til skáldahúsanna á Akureyri.

[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja út í fjárveitingar til skáldahúsanna á Akureyri; Davíðshúss, Nonnahúss og Sigurhæða. Ég sendi skriflega fyrirspurn til ráðuneytisins og fékk svar fyrir nokkru síðan sem mér finnst ekki nógu gott, það er svolítið vísað út og suður. Ég spyr hvers vegna þessi skáldahús hafi ekki fengið neina rekstrarstyrki frá ríkinu frá árinu 2012. Þá er vísað í að þessir stofnunar- og rekstrarstyrkir hafi farið inn í landshlutasamtökin. Samt sem áður eru höfundarsöfn hér á landi sem fá styrk beint frá menntamálaráðuneytinu. Það er greinilega ekki sama hver er. Þegar spurt er hvernig ráðherra hafi gætt jafnræðis skáldahúsanna og þriggja annarra sambærilegra menningarstaða á landsbyggðinni er svarið að samningssamband sé á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og nokkurra skáldasafna; Gunnarsstofnunar, Snorrastofu, Gljúfrasteins og Þórbergsseturs. Þá vaknar spurningin: Af hverju samningssamband við sum skáldahús en ekki önnur? Hvað þarf til til að ná slíku samningssambandi? Nú veit ég að Akureyrarbær og forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri heldur utan um rekstur safnanna en Minjasafn klýfur það varla það lengur. Þarf maður að þekkja einhvern í ráðuneytinu eða hvert er málið? Get ég boðið hæstv. ráðherra í kaffi í mötuneytinu á eftir og við náum þessu samningssambandi? Ég vil gjarnan fá svör við því. Mér finnst gríðarlega mikilvægt við útdeilingu á almannafé að gætt sé jafnræðis. Ef einhver söfn eins og þessi þrjú fá engin fjárframlög frá ríkinu, hver er þá ástæðan fyrir því? Er það réttlátt?