145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka góð orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem sýnir mér alltaf jafn mikla væntumþykju. Mig langar nú bara að leiðrétta hér aðeins að vitanlega er það alrangt sem fram kom hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að verið sé að draga úr möguleikum hins opinbera. Það er einmitt verið að auka möguleika hins opinbera með þessari tillögu til að taka á þeim sem fara mögulega ekki vel með dýr og skepnur, stunda svo sem dýraníð, eins og við höfum verið að tala um hér. Það er hins vegar alveg sanngjarnt að hér komi menn upp og sé býsna heitt í hamsi eftir þá umræðu sem var síðast þegar við ræddum þessi mál þar sem menn voru einmitt úthrópaðir dýraníðingar fyrir að vilja ekki samþykkja þá tillögu sem þá var lögð fram. Það góða er að sú tillaga hreyfði við þessu máli. Ég er þakklátur fyrir það. Upp úr stendur að við erum komin með góða tillögu sem styrkja mun Matvælastofnun og bæta við þau fjölbreyttu úrræði sem sú stofnun hefur í dag til að taka á þessum hlutum. Ég segi já.