145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur viljum við vinstri græn að þessi samningur fari aftur til ríkisstjórnarinnar og að áhrif hans á landbúnað í landinu verði greind sem og á margt fleira sem liggur þar undir. Það er mjög mikilvægt því að þarna er verið að tala um gífurlega magnaukningu í hvítu kjöti og annarri landbúnaðarvöru sem við getum vissulega framleitt innan lands. Þetta varðar líka umhverfismál, neytendasjónarmið, vinnumarkaðsmál og svo mætti lengi áfram telja því að þetta hefur allt áhrif á hvernig og hvað við getum framleitt hér sjálf og hvað við ætlum að flytja inn í landið af landbúnaðarafurðum sem uppfylla ekki sömu gæðakröfu og við gerum til íslensks landbúnaðar. Við vitum ekkert hvaðan þær kjúklingabringur sem eru fluttar hingað inn koma, við hvaða skilyrði þær hafa verið framleiddar og hvort dýravelferðarlög hafi (Forseti hringir.) þar verið höfð í hávegum. Ég tel að ef ekki verður fallist á tillögu okkar vinstri grænna munum við greiða atkvæði gegn þessum samningi.