145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykjav. s. lýkur andsvari á þeim stað sem ég vildi taka við því. Ég heyrði á ágætri ræðu hv. þingmanns, sem er ávallt sannfærandi þegar kemur að þessum málaflokki, að hann er herskárri í þessum málaflokki en sá sem hér stendur þótt ég telji mig vissulega náttúruverndarsinna eins og ég hygg reyndar að flestir hér inni kalli sig.

Eitt af því sem ég hef lent í vandræðum með gagnvart þessum málaflokki er það að við að kanna vatnsaflsvirkjanir kemst ég ekki hjá því að vera hlynntur þeim, samt ekki öllum. Nú vona ég að ég sé ekki að misskilja hv. þingmann, hann leiðréttir mig bara ef svo er, en mér finnst af orðræðu hans hann almennt vera á móti vatnsaflsvirkjunum; ég ætla ekki að leggja honum orð í munn, hann bara leiðréttir það þá hér.

Það sem ég velti fyrir mér er hvernig hv. þingmaður mundi vilja hafa ferli eins og rammaáætlun þannig að það væri í samræmi við væntingar hans til náttúruverndar og nýtingaráætlunar sem hægt væri að keyra í gegnum Alþingi á einhvern hátt í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að hér er málið lagt fram, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, án þess að hæstv. ráðherra hafi breytt því eða að það liggi fyrir að menn ætli að breyta þessu, enda fór annar hv. þingmaður inn á það að það fylgir því ákveðin pólitísk hætta fyrir málið sjálft.

Hugmyndin á bak við málið allt, rammaáætlun, er auðvitað sú að búa til verklag sem fólk getur verið sátt um þótt auðvitað verði aldrei allir sáttir um niðurstöðuna og eðlilega ekki, þetta er þannig málaflokkur.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir um það hvernig hægt sé að gera þetta ferli betra en það raunverulega er ef þetta er ekki hið rétta ferli og ef þetta er faglegt ferli, og ég hef enga ástæðu til að halda að svo sé ekki, þá velti ég fyrir mér í stuttu máli hvers vegna bíða eigi með málið. Hvers vegna ekki afgreiða það á þessu þingi?