145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[19:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum. Hann kom náttúrlega inn á Kerlingarfjöll. Það er orðið talsvert erfitt þegar það tekur orðið áratugi að koma slíku í framkvæmd. Ég var næstum því farin að baka sjálf í vor, mér finnst ég vera komin með höndina á friðlýsinguna. En það er nú svona, mál geta greinilega stundum reynst erfið. Gaman að við höfum þetta sameiginlega áhugamál og ef mér tekst þetta þá sé ég að ég verð að hafa fylgdarsvein með mér héðan frá Alþingi.

Vitaskuld tek ég undir það að þetta er knappur tími hér á Alþingi Íslendinga að vinna úr þessu, en get svo sem engu þar við bætt annað en það sem ég sagði hér fyrr að ég held að flestöllum þingmönnum sé mjög kunnugt um hvað þarna er í gangi og að hverju hefur verið unnið vegna þess langa umsagnarferlis sem hefur verið. Ég held að það séu fá mál sem fara fyrst á almenna fundi sem haldnir eru um landið, einir sex, sjö ef ég man rétt, og fengnar umsagnir af þeim, unnið úr því og sett svo aftur í 12 vikna umsagnarferli. Það voru náttúrlega mun fleiri sem komu með umsagnir í seinna ferlinu, en þannig var þetta og mjög margir ættu að vera búnir að koma að málinu síðastliðið hálfa ár.

Ég endurtek að það er ósk mín að málið verði klárað, en ég skil samt alveg að fólk kjósi og hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma.