145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykjav. s. sagði að Píratar væru að berjast gegn því að skýrslan kæmi fram. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að píratar hafa ekki einu sinni atkvæðisrétt í fjárlaganefnd og hafa ekkert um það að segja hvort hún er birt eða ekki. Hv. þingmanni er fullkomlega frjálst að birta þau gögn sem honum sýnist án leyfis pírata, og hefur reyndar gert það og verði honum að því. En það skiptir máli á hinu háa Alþingi að hér sé farið eftir þingsköpum þegar látið er eins og gögn komi frá Alþingi. Ég skora á hv. þingmann að leggja skýrsluna fram í fjárlaganefnd og fá meiri hluta fyrir henni og birta hana í nafni Alþingis. Ég skora á hv. þingmann að gera það og sjá þá hver munurinn verður á þeirri skýrslu og því plaggi eða gögnum eða hvað sem það er sem hér liggur einhvers staðar fyrir, einhvers staðar úti í bæ, ekki hér á Alþingi. Hér snýst þetta um formið. Það skiptir máli, virðulegi forseti.

En efnislega um þessa skýrslu — ja, það getum við karpað um þegar hún er orðið eitthvert plagg á Alþingi. Hv. þingmaður (Forseti hringir.) getur lagt fram það sem honum sýnist eins og við hin. (Forseti hringir.) Það þarf ekki leyfi pírata til þess.