145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

framtíðarskipan lífeyrismála.

[16:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar svo stóru samkomulagi er landað þar sem miklir hagsmunir eru undir er mjög mikilvægt að málið detti ekki ofan í hefðbundnar skotgrafir stjórnmálanna. Að málinu komu fulltrúar launafólks ásamt kjörnum fulltrúum ríkis og sveitarfélaga úr öllum flokkum. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um það að við þurfum að vanda okkur við afgreiðslu málsins og kynna okkur forsendur og meta afleiðingar en um leið sýna virðingu samkomulagi sem náðst hefur í flóknum máli sem varðar hag og kjör fólksins í landinu? Heildarkostnaðurinn er um 130 milljarðar króna og tæpir 100 milljarðar koma úr ríkissjóði til lífeyrissjóðanna.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Má búast við því að milljarðanna verði vart í efnahagnum, svo sem með aukinni verðbólgu, og er jafnvel nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir fái heimild til að fjárfesta utan gjaldeyrishafta vegna þeirra?