145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og margir aðrir fagna ég þessu frumvarpi, það er auðvitað til bóta að mörgu leyti. Þegar ég lít á 1. gr. þess er þó eitt sem vefst svolítið fyrir mér í þessu, hvort í raun sé verið að takmarka gerðir lögreglu til að hlera og hlusta og þau úrræði sem hér um ræðir. Eftir sem áður er það alltaf mat dómstóla hvað eru ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir. Við erum að færa refsimörkin úr átta árum í sex ár og af einhverri óskiljanlegri ástæðu tökum við fram ákveðnar greinar þar sem undir gætu verið einhverjir almanna- eða einkahagsmunir.

Ég er að velta fyrir mér hvaða almannahagsmuni eða einkahagsmuni hv. þingmaður gæti séð í 206. og 210. gr. til hlustunar og hlerunar. Löggjafinn gefur vísbendingu um að þar einhvers staðar gætu verið almannahagsmunir eða einkahagsmunir, tekur út önnur ákvæði sem ég sé sjálfur alveg fyrir mér að gætu frekar verið almanna- eða einkahagsmunir í því að hlusta eða hlera en til að mynda í þessum greinum.

Það sem ég held að við getum óttast, og ég vil vita hvort þingmaðurinn er sammála mér í því, er hvort við séum í raun að gefa lögreglu frekari möguleika á að hlusta og hlera en áður var.